Hvítasunnudagur í dag
Í dag er hvítsunnudagur, sem er auk páska og jóla ein af sameiginlegum höfuðhátíðum kristinnar kirkju. Hátíðin markaði upphaflega lok páskatímans sem stóð í 50 daga, en varð síðar að sjálfstæðum minningardegi um það sem kallað er úthelling heilags anda.
Á hvítasunnudag hinn fyrsta tóku postularnir á móti heilögum anda. Þeir töluðu tungum -- þ.e. mæltu þannig að hver og einn nærstaddur skildi þá líkt og þeir töluðu á hans móðurmáli, en þar voru menn af mörgum þjóðernum. 3000 manns létust skírast til kristni þann daginn. Þessi þrjú þúsund voru fyrsti kristni söfnuðurinn.
Eins og páskarnir tengist hvítasunnan fornri ísraelskri og síðar gyðinglegri hátíð. Hátíðin var upphaflega uppskeruhátíð sen haldin var á fimmtugasta degi eftir páska, en var síðar haldin til minningar um sáttmála Drottins við Ísraelsþjóðina á fjallinu Sínaí þegar boðorðin 10 voru sett (2. Mósesbók, 19. kapítuli og áfram). Hátíðin vitnar því um samhengi í trúarbragðasögunni þrátt fyrir að inntak hennar hafi breyst mikið í tímans rás.
Upphaflegt heiti hátíðarinnar, pentekosté heméra eða fimmtugasti dagurinn, var tekið í arf frá grískumælandi gyðingum. Af því nafni er heiti hvítasunnunnar í ýmsum erlendum málum dregið, til dæmis pentecost á ensku og pinse á dönsku. Íslenska heitið hvítasunna á sér einnig hliðstæðu í ýmsum málum, til dæmis Whitsunday á ensku.
Til forna var heitið hvítadagur venjulega notað. Var nafnið dregið af því að algengt var að skíra fólk á aðfaranótt hvítasunnu, en hún var haldin hátíðleg eins og ýmsar aðrar aðfaranætur stórhátíða. Jólanóttin er dæmi um slíka aðfaranótt sem enn er haldin hátíðleg. Eftir skírnina voru þeir sem skírst höfðu færðir í hvít klæði eða hvítavoðir sem skírnarkjólar nútímans eiga rætur að rekja til. Hinir hvítklæddu skírnþegar settu því mikinn svip á hátíðarhald dagsins og raunar alls páskatímans.
Texti af vísindavefnum. Mynd: Hvítasunnan eftir Duccio di Buoninsegna.