Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvetur Suðurnesjafólk til að panta tíma í svínaflensusprautu
Þriðjudagur 17. nóvember 2009 kl. 14:39

Hvetur Suðurnesjafólk til að panta tíma í svínaflensusprautu

Bólusetning gegn svínaflensu á Suðurnesjum hefur gengið framar vonum en betur má ef duga skal. Nú þegar hafa um 3500 einstaklingar verið sprautaðir með bóluefni gegn svínaflensunni en á Suðurnesjum eru um 5000 einstaklingar annað hvort með undirliggjandi sjúkdóma og ættu ekki að láta hjá líða að láta sprauta sig, eða í forgangshópum af öðum ástæðum.


Sigurjón Kristinsson er sóttvarnalæknir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hefur komið að skipulagningu og framkvæmd bólusetningar gegn svínaflensunni á Suðurnesjum, ásamt Ingibjörgu Steindórsdóttur yfirhjúkrunarfræðingi. Hann segir verkefnið hafa gengið mjög vel og eiginlega betur en menn þorðu að vona í upphafi. Undanfarna fimmtudaga hafa forgangshópar verið bólusettir í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ. Sú aðgerð hefur heppnast vel og eru 4-5 einstaklingar sprautaðir með bóluefni á mínútu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Bólusetningarferlið tekur um 20 mínútur frá því fólk kemur inn í Íþróttaakademíuna. Fyrst fer fram skráning og öflun upplýsinga um ofnæmi og eftir sprautuna þarf fólk að bíða á staðnum í 15 mínútur en það er sá tími sem ofnæmisviðbrögð við efnum sprautunnar koma fram. Að sögn Sigurjóns hafa engin vandamál komið upp en fólk megi búast við því að vera aumt í einn til tvo daga eftir sprautuna.


Sigurjón sagði svínaflensusprautuna ekki mikið öðruvísi en venjulega flensusprautu. Fleiri efni séu í svínaflensusprautunni sem sé ætlað að gefa ónæmiskerfi líkamans vænan kinnhest og undirbúa það til að takast á við veirusýkingar.


Nú berast fréttir af því að verulega hafi slegið á svínaflensuna og hún sé í rénun. Sigurjón segir að það þýði ekki að hún sé yfirstaðin. Það komi önnur bylgja og því skipti miklu máli að bólusetja sem flesta nú þegar flensan sé í lægð. Næsta bylgja gæti vel orðið öflugri og lagt fullfríska einstaklinga.


Á landinu öllu hafa um 50.000 manns verið bólusettir við svínaflensu og Sigurjón segir að því sé nægur „eldiviður“ í landinu fyrir flensuna þegar hún gýs upp aftur. Með því að bólusetja sem flesta náist að höggva í flensuna og gera henni erfitt um vik við að smitast á milli manna.


Sigurjón segir mikilvægt að þeir sem hafi undirliggjandi sjúkdóma skrái sig í sprautu í dag eða á morgun en sprautað verður við svínaflensunni á fimmtudaginn, 19. nóvember, í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ.


Tímabóknanir eru í dag og á morgun frá kl. 08-12 og 13-16 í síma 422 0600 fyrir þann hóp.


Í framhaldinu verður almenningi boðin bólusetning en tímapantanir í hana hófust í gær og tímapantanir fyrir almenning eru virka daga frá kl. 08-12 og 13-16 í síma 422 0600. Fyrsti bólusetningardagur fyrir almenning er þann 23. nóvember nk. Sigurjón segir að engöngu þurfi eina bólusetningu og á það líka við um börn.


Aðspurður um hvernig svínaflensan hafi farið í Suðurnesjamenn, segir Sigurjón að hún hafi fylgt höfuðborgarsvæðinu. Hér hafi einstaklingar orðið mjög veikir og verið sendir á gjörgæslu. Þá hafi fólk verið sett í einangrun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.


Sigurjón segir mikilvægt að fólk láti bólusetja börnin sín og að þeir sem séu veikir fyrir láti bólusetja sig sem fyrst. Hann segir að svínaflensan geti verið mjög svæsin og mörg dæmi þess að ungir og frískir einstaklingar hafi orðið fárveikir. Sigurjón segist ekkert mark taka á efasemdaröddum sem upp hafa komið í tengslum við svínaflensusprautuna. Hann segir ekkert að óttast við sprautuna.


Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur átt gott samstarf við lögregluna á Suðurnesjum og Björgunarsveitina Suðurnes í tenglsum við bólusetninguna í Íþróttaakademíunni. Einn fimmtudaginn komu þangað um 2000 manns í bólusetningu og því þarf góða stjórn á alla umferð og aðstoð við fólk þegar inn í Íþróttaakademíuna er komið. Lögreglan hafi stjórnað umferðinni utandyra og björgunarsveitarfólk veitt sinn stuðning innandyra eftir að fólk hefur fengið sprautuna. Það sé þekkt staðreynd að 1-3% þeirra sem fá sprautu, hvort sem það er svínaflensusprauta eða önnur sprauta, líður illa eftir sprautuna, það er ekki vegan bóluefnisins heldur streitu einkenni við sprautuna sjálfa. Það hefur því komið í hlut björgunarsveitarfólks að aðstoða það fólk.