Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hvetja til ábyrgrar umgengni í baráttu gegn skemmdarverkum
Fimmtudagur 12. febrúar 2009 kl. 15:53

Hvetja til ábyrgrar umgengni í baráttu gegn skemmdarverkum


Því miður kunna ekki allir að meta snyrtilegan bæ eða þegar bæjaryfirvöld auka lífsgæði okkar borgaranna með því að setja upp snyrtilega lýsingu meðfram göngustígum og fleira í þeim dúr. Þannig hafa verið unnar umtalsverðar skemmdir á snyrtilegri göngustígalýsingu við Kamb í Innri Njarðvík. Hafa staurarnir eða pollarnir verið brotnir niður. Þá hafa biðskýli fyrir strætisvagna í Reykjanesbæ fengið að kenna á skemmdarvörgum, sem og merkingar og leiðarkort strætisvagna.

Starfsmenn Reykjanesbæjar hafa áhyggjur af þessari þróun og vilja hvetja íbúa til ábyrgrar umgengni enda mikill kostnaður sem fylgir því að endurnýja bæði strætóskýli og staura. Stefnt er að því að fara í samstarf við grunnskóla og fá nemendur í samstarf til þess að bæta umgengnina, segir Guðlaugur Sigurjónsson framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar í samtali við Víkurfréttir.



„Mörg undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að gera Reykjanesbæ að betri bæ að búa í. Með markvissu átaki í gerð göngustíga, fegrun umhverfissins og bættra samgangna hefur bærinn tekið stakkaskiptum. Búið er að koma upp metnaðarfullu strætókerfi og verið er að merkja upp strætóleiðir og setja upp biðskýli,“ segir Guðlaugur.

Hann segir að mikil aukning hefur verið að undanförnu í notkun almenningssamgangna og er það vel. „Það er einnig ánægjulegt að íbúar bæjarins virðast vera ánægðir með þær framkvæmdir sem hefur verið farið í á undanförnum árum og má til dæmis sjá mikinn mannfjölda á göngustígum bæjarins  á góðviðrisdögum“.

Guðlaugur segir að Reykjanesbær ætliáfram að styrkja bæði almenningssamgöngur sem og göngustígakerfi bæjarins. Uppi eru hugmyndir um að setja upp áningastaði við göngustíga með bekkjum, merkja gönguleiðir og jafnvel einhverri dægradvöl. Þetta mun að sjálfsögðu kosta eitthvað en við teljum þessum fjármunum vel varið svo lengi sem bæjarbúar hafa yndi af.



„En því miður hefur það sýnt sig að hér í bæ eru einstaklingar sem bera ekki mikla viðringu fyrir umhverfinu því mikið hefur verið um skemmdir á eigum bæjarbúa að undanförnu bæði í og við strætóskýli sem og á ljósum við göngustíga. Frá því að nýtt strætókerfi var tekið í notkun nú í haust var farið í mikla herferð að merkja nýtt kerfi upp, setja leiðarkerfið á staura og inn í skýli.

Miklum fjármunum hefur verið varið í þessar framkvæmdir og mikill metnaður lagður í að merkja leiðarkerfið vel upp. Nú er hinsvegar svo komið að búið er að eyðileggja stóran hluta af þessum merkingum og mikil vinna frammundan að lagfæra það. Bæði hafa þau verið brotin, sprengd upp og hreinlega fjarlægð.

Strætóskýlin sjálf hafa einnig orðið fyrir barðinu á skemmdarfýsn þessara einstaklinga. Búið er að brjóta plexigler í fjölmörgum skýlum og er greinilegt að ekki líkar öllum að hafa í þeim skjól“.



Eins og áður sagði þá hefur Reykjanesbær unnið í því að styrkja göngustígakerfi bæjarins og  var farið í að lýsa upp stóran hluta þeirra með ljóspollum og hefur verið gerður góður rómur af. Nýr göngustígur norðan við Kamb í Innri Njarðvík er einn þessara göngustíga og er hlutverk hans að tengja saman Kamb og nærliggjandi hverfi auk þess að vera góð gönguleið að Akurskóla.

„Nú haf einhverjir tekið sig til og sparkað þessa ljóspolla niður og brotið allar festingar  á þeim. Þetta er umtalsvert tjón sem unnið hefur verið á þessum stað því allt í allt hafa um 13 ljóspollar verið brotnir þarna frá áramótum.

Það er von okkar hjá Umhverfis- og skipulagssviði að bæjarbúar hjálpi okkur við að minnka þessi skemmdarverk  með þvi að hafa vakand auga með þessum svæðum. Með samstilltu átaki getum við komið í veg fyrir svona skemmdarverk og haldið áfram að gera Reykjanesbæ enn betri,“ segir Guðlaugur Sigurjónsson hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjanesbæjar að endingu.




Meðfylgjandi myndir sýna þær skemmdir sem m.a. hafa verið unnar síðustu daga og vikur.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024