Hvetja ríkið til að tryggja fjármagn í sálfræðiþjónstu hjá FS
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, S.S.S., tekur undir mikilvægi þess að hafa gott aðgengi fyrir framhaldsskólanema að sálfræðiþjónustu. Sálfræðiþjónusta fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja var til umfjöllunar á síðasta stjórnarfundi SSS.
Fram kom í samantekt sem lögð var fyrir fundinn að aðgengi að þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu er minna eftir útskrift úr grunnskóla. Einnig kemur fram í samantektinni að fleiri nemendur en áður upplifa margvíslega erfiðleika á framhaldsskólaárunum. Dæmi um það er námserfiðleikar, einbeitingarleysi, slök skólasókn, félagsleg einangrun og að lokum brottfall.
Frá haustönn 2016 til vorannar 2018 var sálfræðiþjónusta í boði fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem styrkt var úr sjóði á vegnum ríkisvaldsins. Nú er sá sjóður ekki lengur til staðar.
Stjórn S.S.S. telur mikilvægt að þessi þjónustu sé í boði innan Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hvetur ríkisvaldið til þess að tryggja fjármagn til þjónustunnar.