Hvetja konur til að læra flugvirkjun
Flugvirkjanám hófst hjá Keili haustið 2013 og á dögunum voru fyrstu nemarnir útskrifaðir, 22 talsins. Að sögn Rúnars Árnasonar, forstöðumanns Flugakademíu Keilis, hefur aðsóknin verið mjög góð til þessa, enda hafa atvinnumöguleikar flugvirkja sjaldan verið meiri en í dag. „Í flugvirkjun felst svo miklu meira en að skrúfa í vélar. Flugfélögin ráða líka til sín flugvirkja í viðhalds- og varahlutadeildir. Svo eru aðrir flugvirkjar eingöngu í skrifstofuvinnu en þar er mjög gott að hafa flugvirkjamenntun og reynslu á því sviði.“ Þá bendir Rúnar á að öll gæðakerfi í kringum flugfélög krefjist mikils mannafla, meðal annars flugvirkja sem oft og tíðum hafa gegnt mikilvægum hlutverkum í slíkum verkefnum.
Það var ekki nein tilviljun sem réði því að ákveðið var að hefja kennslu í flugvirkjun hjá Keili á sama tíma og mikill uppgangur er í flugheiminum. Rúnar er rekstrarfræðingur með MBA og hafði unnið að greiningarvinnu meðal annars fyrir ýmis fyrirtæki í fluggeiranum erlendis. „Í kringum 2011 var gríðarlegum vexti spáð í flugi. Ég nefndi þetta við Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóra Keilis, og spurði hann hvort Keilir ætlaði ekki að vera með í flugpartýinu og þannig hóf ég störf hér og tók við uppbyggingarstarfi Flugakademíu Keilis árið 2012.“ Flugakademían hóf starfsemi sína árið 2008 með tveimur kennsluvélum og síðan þremur til viðbótar árið 2009. Í mars næstkomandi bætist níunda flugvélin við í flota Keilis þegar ný Diamond DA40 flugvél kemur til landsins.
Senay Guelay Okubu, nemi í flugvirkjun. Ljósmynd/Óli Haukur Mýrdal/Ozzo
Konur þriðjungur umsækjenda
Konur eru lítill hluti flugvirkjanema við Keili, aðeins þrjár af sextíu nemendum. Nú stendur til að breyta því og verður sérstakri markaðsherferð hleypt af stokkunum fyrir næsta skólaár. Rúnar segir kynjahlutföllin vera jafnari meðal flugmanna en að bæta þurfi úr í flugvirkjun. „Sú ímynd er enn ríkjandi að flugvirkjun sé karlastarf. Þannig þarf það ekki að vera og við viljum breyta því og erum búin að búa til kynningarefni til að hvetja konur til náms í flugvirkjun.“ Forsaga átaksins er sú að Rúnar skoðaði viðhaldsfyrirtæki í Danmörku þar sem konur voru sjö af tólf flugvirkjum á vakt. „Ég hugsaði með mér að ef þetta væri hægt í Danmörku þá hlyti það að vera hægt líka hér á Íslandi.“ Konum meðal flugvirkja hefur þó fjölgað aðeins á Íslandi frá því sem áður var. Rúnar er sannfærður um að starfið henti alveg eins konum og körlum. Þess má geta að eftir að opnað var fyrir umsóknir í flugvirkjanámið í síðustu viku hefur um þriðjungur umsókna komið frá konum, þannig að átakið virðist skila árangri nú þegar.
Samstarf við elsta flugvirkjaskóla Bretlands og Evrópu
Flugvirkjanámið í Keili er kennt í samstarfi við Air Service Training, AST, sem er hluti af Perth College og University of Highlands and Islands og hefur starfrækt flugvirkjaskóla í 85 ár á Bretlandseyjum. Nemendur Keilis útskrifast því með flugvirkjaskírteini sem gefið er út af AST og bresku flugmálastjórninni. Upphaflega var hugmyndin að námið yrði aðeins á vegum Keilis en það hversu flókið það var réði því að farið var í samstarf við AST sem er með útstöð sína á Ásbrú í samstarfi við Keili. Próf, námsefni og gæðakerfi koma því frá AST. Uppbygging námsins hefur verið aðlöguð að íslenskum veruleika og eru löng sumarfrí og hefðbundin jóla- og páskafrí. „Með samstarfinu við AST getum við boðið upp á rótgróið og sterkt nám, auk þess sem nemendur fá tækifæri til að öðlast alþjóðlega reynslu í tveggja mánaða verklegu námi erlendis. Við komum svo með okkar snúning á þetta og höfum gert námið nútímavæddara, til dæmis með því að afhenda nemendum spjaldtölvur í stað bóka. Þá er svokölluðu vendinámi beitt hjá okkur að hluta sem og hefðbundinni kennslu,“ segir Rúnar.
Útflutningur á menntun hjá Keili
Í dag koma um 65 prósent nema Keilis í flugi erlendis frá. Í kjölfar efnahagshrunsins og veikrar íslenskrar krónu var ákveðið árið 2012 að vinna markvisst að því að fjölga erlendum nemum hjá Keili. „Þannig fór námið á flug og okkur tókst að koma því á kortið í Evrópu með sterkri markaðsvinnu markaðsstjóra Keilis og alls starfsfólks skólans, bæði í Flugakademíunni og öðrum deildum.“ Rúnar segir erlenda flugnemendur sérstaklega sækja í flugnámið þar sem það er kennt í einni samfellu, svokallað „integrated“ flugnám, en auk þess sækja þeir í tæknivæddan flugvélaflota og möguleika á því að fljúga um í stórbrotinni náttúru Íslands. „Enn sem komið er eru allir flugvirkjanemarnir frá Íslandi en verið er að undirbúa markaðssetningu erlendis með svipuðu sniði og við höfum gert í fluginu til þessa og erum við hjá Keili mjög bjartsýn á framhaldið, enda er fyrsti útlendingurinn er þegar búinn að sækja um í flugvirkjun fyrir næsta haust hjá okkur.“
Árni Már Andrésson, kennslustjóri flugvirkjanáms hjá Keili.
Með viljann að vopni
Nám í flugvirkjun er krefjandi að sögn Árna Más Andréssonar, kennslustjóra flugvirkjanáms hjá Keili. Nemendur eru á aldrinum á milli tvítugs og fertugs og sumir að byrja aftur í skóla eftir langt hlé. „Nemendur þurfa að hafa góðan grunn í ensku, stærðfræði og eðlisfræði og því ráðleggjum við öllum taka grunnnámskeið sem eru aðgengileg á vefnum okkar, í viskubrunni. „Þetta er strembið nám en vel yfirstíganlegt með viljann að vopni,“ segir hann.
Margir flugvirkjanemendur eiga að baki menntun sem og feril í öðrum greinum eins og rafvirkjun og bifvélavirkjun. Þá er einnig einn sjúkraliði í hópnum. Árni segir fleiri konur sækja í námið þar sem starfið henti þeim ekkert síður en körlum. Árni segir fólk oft sækjast í að bæta við sig flugvirkjamenntun til að hækka launin. „Það eru betri laun í flugvirkjun en ýmsum öðrum iðngreinum, en það verður líka að taka með í dæmið að námið er mikil fjárfesting. Framboð af vinnu er mjög gott, sérstaklega hjá þeim sem eru tilbúnir að vinna erlendis en að sama skapi er uppgangur í flugi á Íslandi mjög mikill um þessar mundir og því atvinnuhorfur hér heima góðar.“