Hvetja flokka að setja málefni aldraða í forgang
- Öldungaráð Suðurnesja vill betri heilbrigðisþjónustu
Aðalfundur Öldungaráðs Suðurnesja fór fram þann 23. september síðastliðinn. Mikið var rætt á fundinum um það hversu höllum fæti heilbrigðismálin standa hér á Suðurnesjum. Þá var einnig rætt að skortur sé á hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum, bæta þurfi þjónustu verulega og flokkar hvattir til að setja málefni aldraðra í forgang fyrir næstu kosningar.
Mikill skortur á hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum
Formaður Öldungaráðs Suðurnesja Erna M. Sveinbjarnardóttir tók til máls á fundinum og sagði hún að þegar litið væri til baka á þessu ári þá hafi stjórnin verið afar atorkusöm. Stjórnin hefur meðal annars lagt áherslu á og komið fram ályktunum eins og; Mikill skortur er á hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum, hér er skorturinn sá mesti á landinu. Haldi þetta svona áfram getur skapast neyðarástand. Fólksfjölgun er einnig mikil á svæðinu og það fjölgar sífellt í hópi aldraða. Þetta hefur verið rætt við ráðamenn á fundum en það virðist vera talað fyrir daufum eyrum. Ekki nóg með að hjúkrunarrýmin séu fá heldur er skortur á læknum sem sé einnig mikið áhyggjuefni. Þau velta fyrir sér hvers vegna þjónustan er ekki lengur eins og hún var, með útibú í Sandgerði og Garði. Álagið hafi bara aukist á starfsfólk með auknum ferðamannastraumi og fólksfjölgun, ekki sé þó við starfsfólkið að sakast, það er bara að sinna vinnunni sinni.
Bíða lengst eftir umönnun
Reiknað er með að sjúkum öldruðum fjölgi ört á næstu árum og í dag eru um þrjátíu sjúkir aldraðir sem svarar einni hjúkrunardeild. Stjórn Öldungaráðs ítrekar enn og aftur áskorun sína til sveitarfélaganna á Suðurnesjum að standa saman og senda inn umsókn um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Suðurnesjum. Kemur einnig fram í tillögunni að sjúkir aldraðir hér á Suðurnesjum bíði lang lengst eftir umönnun á hjúkrunarheimilum en áður hafi þeir notið þjónustu heimilishjálpar og heimahjúkrunar. Eldri borgurum fjölgi ört hér á Suðurnesjum og til að mæta því sé nauðsynlegt að bregðast nú þegar við og setja nýtt hjúkrunarheimili á dagkrá.
Bæta þarf þjónustuna
Ályktun var borin fram af ÖS og vilja þau að þjónusta fyrir sjúklinga á HSS verði færð aftur í sama horf og hún var fyrir tólf árum síðan og í það þjónustustig sem ætlað var frá upphafi. Skipulag þurfi einnig að koma á viðveru heimilislækna og ráða fleiri.
Það þurfi að auka starfsemi fæðingadeildar, skurðdeildar og efla slysa- og bráðamóttöku sjúkrahússins. Fæðingum hefur fækkað gríðarlega á svæðinu undanfarin ár.
Tryggja þurfi öryggi íbúa á Suðurnesjum eins og áætlun um uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu geri ráð fyrir og aukinnar umsvifa vegna mikilla fjölgunar íbúa og vaxandi umferðar á Keflavíkurflugvelli.
„Stöndum saman a rétti okkar til jafnaðar í heilbrigðisþjónustu, hér hefur verið vitlaust gefið til okkar á Suðurnesjum.“
Málefni aldraða í forgang fyrir næstu kosningar
Skorað er á alla flokka sem bjóða fram í Alþingiskosningum þann 28. október næstkomandi að setja málefni aldraða í algjöran forgang á næsta kjörtímabili.
Stefna þarf að því að afnema frítekjumark eldri borgara í áföngum. Fyrsta
skrefið þarf að vera að hækka frítekjumarkið nú um áramótin úr 25 þúsund
krónum í 100 þúsund krónur. Það stangast á við jafnræðisreglu
stjórnarskrárinnar að beita sérstökum skatti á fólk sem náð hefur ákveðnum
aldri. Skattar og skerðingar geta í dag numið allt að 71% á eldra fólk.
Óbreytt staða stuðlar að því að hvatinn til vinna hverfur. Óbreytt staða hvetur
til þess að launamenn færa sig inn í svarta hagkerfið.
Það þarf því að vera algjört forgangsmál að hækka frítekjumarkið í 100 þúsund
krónur um næstu áramót.
Öldungaráð Suðurnesja skorar einnig á alla stjórnmálaflokka að
beita sér fyrir hækkun á skattleysismörkum. Það getur ekki gengið að eldri
borgarar sem hafa eingöngu 280 þúsund krónur á mánuði þurfi að greiða um
53 þúsund krónur í skatta af þeirri upphæð.
Aðalfundur Öldungaráðs Suðurnesja tekur undir samþykkt Landsambands eldri
borgara á Landsfundi sínum í maí s.l. : „ Í skýrslu um fjölþjóðlega rannsókn á
vegum OECD kemur fram að íslenska lífeyriskerfið sker sig úr með mikilli
tekjutengingu lífeyris úr almannatryggingunum, jafnframt er Ísland eina landið
þar sem lífeyrir frá Tryggingastofnun fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum
fara yfir tiltekin mörk. Draga þarf úr þessum skerðingum hið fyrsta og taka upp
eðlilegan grunnlífeyri fyrir alla. Fundurinn bendir á að Íslendingar sé eina þjóða í Evrópu sem gert er að búa við skertan grunnlífeyri.“
Ekki komin formleg afstaða til samþættingar
Öldungaráð kannaði í júní síðastliðinn afstöðu þeirra bæjarstjórna á Suðurnesjum sem aðild eiga að Öldungarráði um samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimilishjálpar á Suðurnesjum. Svar þeirra flestra var að ekki hefði verið tekin formleg afstaða til samþættingar en það væri vissulega mikill áhugi og jákvæðni í afstöðu til málsins. ÖS hefur formlega óskað eftir því að forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja beiti sér fyrir því að skipuð verði nefnd á vegum HSS og sveitarfélaganna á Suðurnesjum sem útfæra á tillögu um fyrirkomulag samþættingar. Ályktunin var lögð fram með þeirri fullvissu að nú verði kannað hvort hægt verði að gera enn betur í málefnum eldri borgara á Suðurnesjum.