Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvert heimili fengi rafmagn sem dugar fyrir tvo hitablásara
Egill Sigmundsson (t.h.) á upplýsingafundinum í gær. Á myndinni eru einnig Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri og Kristín Jónsdóttir frá Veðurstofu Íslands. VF/Hilmar Bragi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 3. nóvember 2023 kl. 11:02

Hvert heimili fengi rafmagn sem dugar fyrir tvo hitablásara

— „Það er kominn tími til að menn átti sig á alvarleikanum“

„Ég vona bara að þetta ástand sem upp er komið, verði til þess að ráðist verði í aðgerðir strax, það er kominn tími til að menn átti sig á alvarleikanum,“ sagði Egill Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs hjá HS Veitum, einn frummælenda á íbúafundinum sem haldinn var í gær í Grindavík. Egill fór yfir hvaða ráðstafanir HS Veitur hafa farið í og hvað verði gert ef til eldgoss kemur sem gæti laskað starfsemi orkuversins í Svartsengi.

Egill talaði á fundinum út frá verstu sviðsmyndinni sem getur komið upp. „Það versta sem getur komið upp á, er að rafmagns-, heita- og kaldavatnslaust verði inn á þessi svæði. Við höfum lent í þessu áður, sæstrengurinn til Vestmannaeyja bilaði í janúar á þessu ári og tókst ekki að laga hann fyrr en í júlí. Á meðan var notast við díselvélar sem keyrðu rafmagn og olíukatlar keyrðu hitaveituna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við erum strax byrjaðir að undirbúa þessa sviðsmynd. Við höfum fengið vilyrði frá Landsneti fyrir að fá sex til sjö svona díselvélar en þessar aðgerðir miða út frá skammtímalausn. Undirbúningur er hafinn, við erum búnir að reisa undirstöður fyrir þessar vélar við dreifistöðvar á nokkrum stöðum í Grindavík.

Þetta þýðir samt ekki það að allt verði í himnalagi, þetta er bara keyrsla á rafmagni og mun bara láta hvert heimili fá rafmagn sem dugar til að keyra tvo rafmagnsblásara, það dugar ekki til að hita upp heilt hús. Svona er ástandið, ég vil ekki mála skrattann á vegginn en við erum að vinna eftir þessari sviðsmynd.

Ástæða þess að ég nefni þessi þrjú kílóvött sem í boði væri fyrir hvert heimili er að dreifikerfið okkar er ekki byggt upp fyrir rafkyndingu, það er hitaveita á svæðinu. Þetta er skammtímalausnin, sem betur fer verður hægt að fara út í aðgerðir sem taka lengri tíma.

Við höfum verið að vinna með HS Orku varðandi olíukatla sem geta keyrt inn á okkar hitaveitukerfi en það gerist ekki á einni nóttu. Ég vona bara að þetta ástand sem upp er komið, verði til þess að ráðist verði í aðgerðir strax, það er kominn tími til að menn átti sig á alvarleikanum.“

Egill sagði að þessir olíukatlar séu eitthvað sem Almannavarnir ættu að eiga, sem varaafl fyrir fleiri staði en bara Grindavík. „Það þarf að finna þessum olíukötlum stað, það þarf að bora eftir köldu vatni, það þarf að tengja þá inn á hitaveitukerfið okkar, þetta er mun stærra verkefni og tekur meiri tíma. Því fyrr sem ráðist verður í þetta verkefni, því betra,“ sagði Egill að lokum.