Hvernig vinnum við markvissar saman að heilsueflingu og forvörnum?
Ráðstefna Samtakahópsins um heilsueflandi samfélags í Reykjanesbæ fór fram í Stapa miðvikudaginn 16 maí síðastliðinn. Um 80 manns mættu á ráðstefnuna.
Kristján Freyr Geirsson, varðstjóri forvarna lögreglunnar í Reykjanesbæ setti ráðstefnuna og fyrsti ræðumaður var Hafþór Barði Birgisson sem kynnti Samtakahópinn og sagði hann frá helstu verkefnum hans, en hópurinn hefur verið með fyrirlestra um ábyrga netnotkun, forvarnardag ungra ökumanna, fjölmenningadag og margt fleira.
Samtakahópurinn stýrir heilsueflandi samfélagi, þau hafa staðið fyrir heilsu og forvarnarviku á haustin og einnig hreyfiviku Reykjanesbæjar. Samtakahópurinn er þverfaglegur forvarnarhópur sem starfað hefur síðan 2003 og grípa þau strax inn í mál er varða forvarnir ef þurfa þykir.
Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsóknum og greiningu kynnti ný gögn um lýðheilsu ungs fólks í Reykjanesbæ en samkvæmt gögnum hefur samverustundum fjölskyldunnar fækkað mikið í Reykjanesbæ bæði eftir skóla og um helgar og benti Margrét Lilja á að samvera með fjölskyldunni sé verndandi þáttur í forvörnum.
Yfirgnæfandi hluti barna er í góðum málum og forvarnarstarf á Íslandi hefur gengið frábærlega sagði Margrét Lilja að lokum.
Gígja Gunnarsdóttir verkefnastjóri hjá embætti landlæknis ræddi um að allt í samfélaginu hafi áhrif á vellíðan og að öll svið samfélagsins þurfi að taka þátt í að auka vellíðan. Meginmarkmið heilsueflandi samfélags sé að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum og vellíðan allra íbúa. Það þurfi að skoða öll æviskeiðin þegar unnið er að heilsueflingu í samfélaginu. Gígja lauk máli sínu með því að leggja áherslu á góð vinna sé unnin í Reykjanesbæ.
Að lokum kom B. Sif Stefánsdóttir frá Heilsuleikskólanum Garðaseli og sagði frá leikskólanum, en mikil útivera og mikil hreyfing er á leikskólanum og taka foreldrar virkan þátt og skrá hreyfingu barna heima við. Leikskólinn tekur líka þátt í verkefninu „Leikur að læra“ þar sem börnunum er kennt á hreyfingu eins og Sif orðar það.
Við erum lifandi leikskóli með heilsuna að leiðarljósi sagði Sif að lokum.
Kristján Freyr Geirsson fundarstjóri sleit ráðstefnunni með þeim orðum: Við getum verið stolt af því sem við höfum verið að gera. Við erum frábær!