Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvernig líður unglingum í Reykjanesbæ?
Mánudagur 14. febrúar 2005 kl. 14:07

Hvernig líður unglingum í Reykjanesbæ?

FFGÍR býður til opins umræðufundar 17.febrúar næstkomandi í sal Myllubakkaskóla. Eru unglingarnir okkar bjartsýnir á framtíðina? Eru þeir sáttir við mömmu sína og pabba? Hvaða tómstundastarf stunda þeir? Neyta þeir minni eða meiri vímuefna og tóbaks en aðrir? Líður þeim vel í skólanum? Finnst þeim sér vera þröngvað til kynmaka?

Um þessar spurningar og ýmsar fleiri verður fjallað á opnum fundi um unglinga, fimmtudaginn 17.febrúar n.k. kl.20:00 í sal Myllubakkaskóla.

Þar kemur m.a. í ljós hvernig unglingar í Reykjanesbæ svara ofangreindum spurningum og fleirum, samanborið við Suðurnesin og landið allt. Árið 2003-2004 svöruðu allir 9.og 10.bekkingar um land allt ítarlegum spurningalistum um t.d. andlegt og líkamlegt heilsufar og líðan, skólagöngu, samskipti við kennara, neyslu tóbaks og vímuefna og margt, margt fleira í rannsókn á vegum Rannsóknar & Greiningar og verður skýrslan ný kynnt foreldrum, sem og öðrum bæjarbúum.

Fræðslustjóri Reykjanesbæjar, og deildarstjóri í skólahjúkrun, halda erindi um líðan ungmenna og samskipti og dýpka þannig einstaka þætti rannsóknarinnar.Að lokum verða opnar umræður, m.a. munu fulltrúar úr hópi unglinga gefa álit sitt og svara spurningum sem upp koma.

FFGÍR hvetur til opinna skoðanaskipta og upplýsingaflæðis um þessi mál. Þitt innlegg getur verið mikils virði, sem og að þú lærir örugglega eitthvað nýtt.

Foreldrum og unglingum er sérstaklega boðið að taka þátt, og eru allir að sjálfsögðu velkomnir. Einkum starfsfólk í skólum, félagssmiðstöðvum, íþrótta-og tómstundastarfi unglinga og allir þeir sem hafa áhuga á unglingum og málefnum þeirra.

Þátttaka er ókeypis og kaffiveitingar í boði.
Hlökkum til að sjá þig!

FFGÍR
Foreldrafélög og foreldraráð grunnskóla í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024