Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hverfagæsla Securitas í Reykjanesbæ gengur vel
Þriðjudagur 13. janúar 2009 kl. 09:17

Hverfagæsla Securitas í Reykjanesbæ gengur vel

 
Öryggisverðir Securitas hafa frá því 19. desember sl. ekið um öll hverfi Reykjanesbæjar á ýmsum tímum á merktum bíl og hafa vakandi auga með eigum íbúa og sveitarfélagsins, fylgjast með óeðlilegri umferð og mannaferðum og hafa samráð við Lögregluna á Suðurnesjum um ýmis mál.  Um er að ræða tilraunaverkefni um aukna hverfagæslu á vegum Reykjanesbæjar og Securitas.
 
Á þeim tíma sem liðinn er hafa öryggisverðir Securitas sinnt ýmsum málum m.a. komið að galopnum, mannlausum húsum og bílskúrum, og í framhaldinu haft upp á húsáðendum og látið þá vita, tilkynnt lögreglu um ógætilegan akstur bifreiða í íbúðarhverfum, komið að bíl sem hafði runnið afturábak úr innkeyrslu og stóð úti á miðri götu, lokað opnum ræsum og bent á ýmsar slysahættur í umhverfinu og gatnakerfinu. Eins hafa þeir uppgötvað nokkur innbrot í íbúðarhúsnæði.
 
Íbúar Reykjanesbæjar eru hvattir til þess að koma með ábendingar til öryggisvarða, þegar þeir eru á ferð sinni um hverfi bæjarins, og benda þeim á það sem þeir telja að megi betur fara.
 
Þorleifur Sigurðsson, íbúi við Faxabraut í Keflavík, er mjög þakklátur fyrir þjónustu Securitas í hverfinu sínu. Þorleifur fór burtu úr bænum um helgina en hafði láðst að loka bílskúrnum þegar hann fór að heiman. Á eftirlitsferð Securitas um kl. 03 aðfararnótt sl. laugardags veitti öryggisvörður opna bílskúrnum athygli og lokaði honum og læsti. Daginn eftir var Þorleifi greint frá því að öryggisvörðurinn hafi lokað og læst skúrnum. Hann sagðist í samtali við Víkurfréttir mjög ánægður með þessa nýju þjónustu í bænum. Hann hafi á sínum tíma búið í Breiðholti í Reykjavík og tekið þar þátt í foreldrarölti. Þar hafi fólk einnig haft opin augu fyrir hlutum sem þessum. Það sé gott til þess að vita að fyrirtæki eins og Securitas hafi vakandi auga með þessum hlutum, sérstaklega eins og í sínu tilviki þegar hann hafi verið að heiman alla helgina og því hefðu óprúttnir aðilar getað átt greiðan aðgang að verðmætum í opnum bílskúrnum.
 
Mynd: Þorleifur Sigurðsson og öryggisvörðurinn Örn Árnason Amin frá Securitas við merkta bifreið hverfisgæslu Securitas í Reykjanesbæ.

Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024