Hver ræður hverju á heimilinu?
Fyrir tæpum áratug setti heimilisfræðikennari fram spurningar í kennslustund um hvaða hugmyndir nemendur hefðu um hver bæri ábyrgð á heimilisstörfum eins og tiltekt og þrifum á heimilinu, að ryksuga, strauja, matreiða að ganga frá þvotti og svo frv. Nokkrar umræður spunnust um ábyrgð hvers og eins á sjálfum sér og hvort einhverjar reglur væru til um hver ætti að gera hvað á heimilinu, börn eða fullorðnir og hvort það skipti máli hvort það væri karl eða kona. Eiga mömmur að elda og vaska upp? Eiga pabbar að slá blettinn eða þvo bílinn og svo frv. Út frá þessu spunnust umræður meðal nemendanna sem voru í 7. bekk um hver það er sem virkilega ræður á heimilinu. Hver stjórnar? Þá svaraði einn nemandinn: “Sá sem hefur fjarstýringuna. Við kaupum lið í hitt.”
Fákvenni
Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um misrétti kynjanna í fjölmiðlum. Rætt er um hvort konur eigi erfiðara en karlar með að leggja í bílastæði og hvort það geti eitthvað haft með lengd vísifingurs eða baugfingurs að gera. Konur funda um fákvenni í stjórnum og nefndum og hafa miklar áhyggjur af því að fjöldi kvenna í stjórnum fyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkaði hafi ekkert breyst frá árinu 2003. Í stjórnum tólf stærstu lífeyrissjóða landsins sé hlutfall kvenna 19% þó þær séu í miklum meirihluta þeirra sem greiða í sjóðina eins og fram kom á fundi fjögurra fagfélaga kvenna í síðustu viku.. Já ennþá eru konur í “sér” félögum og karlar í sínum félögum. Hverju sætir það?
Er vegið að karlímyndinni?
Á öðrum stöðum finnst karlmönnum vegið að sér og í nýlegum auglýsingum frá Umferðar-stofu þar sem karlmenn eru í aðalhlutverki foreldris finnst þeim dregin upp sú mynd að þeir séu ekki hæfir til að bera ábyrgð á börnum. Greinilegt er að ímynd karla hefur verið að breytast og körlum gefst nú loksins kostur á að fara í fæðingarorlof. Greinilegt er að ímynd karla hefur verið að breytast og sem betur fer þora ungir menn að feðra börn sín og taka nú virkan þátt í uppeldi þeirra. Ég frétti af foreldrafundi í leikskóla um daginn þar sem einungis voru mættir feður. Leikskólakennarinn sem var kona fór alveg í flækju og hélt að eitthvað væri að!. Hún hafði vanist því að þá fyrst væru karlarnir sendir á staðinn. Kannski þeir færist frá Rambo og yfir í raunveruleikann þessar elskur. Séu kannski bara orðnir krúttlegir eins og Arna Scram segir í Mbl. 9.feb. Þar skilgreinir Arna hin ýmsu heiti kynslóða eins og hippa-kynslóðina, uppa-kynslóðina, x-kynslóðina, @-kynslóðina og þumalputta-kynslóðina. Svo nefnir hún krútt-kynslóðina sem sé að ryðja sér til rúms. Holdgervingar þeirrar kynslóðar séu Mugison og strákarnir í Sigur Rós sem séu voða krúttlegir strákar. Þetta hefur hún eftir vinkonu sinni sem hún segir sérfræðing í málinu.
Um daginn heyrði ég heimilislækni tala um að verulega hefði aukist að feður kæmu með börn sín til læknis.Við búum sem sé núna við þá staðreynd að “drengirnir” á verðbréfamarkaðnum, velsnyrtir og jakkafataklæddir með bindishnútinn í lagi, koma til læknis með litlu börnin sín og sumir kvarta við heimilislækninn undan þrálátri eyrnabólgu barnsins og andvökunóttum þar sem gengið er með barnið um gólf. Auðvitað er erfitt að vera þreyttur uppalandi og svefnlaus stjórnarformaður í samkeppni við framakonur! Kannski þar sé einmitt hægt að sjá hina starfsframakrefjandi menningu í hnotskurn og kannski þurfum við að skoða betur hvaða áhrif hún hefur á uppalendur og ekki síst börnin.
Líðan drengja í grunnskólum
En er það staðreynd að konur eigi erfitt uppdráttar í viðskiptalífinu eða að við þurfum að huga betur að líðan drengja? Um hið síðarnefnda verður fjallað á ráðstefnu um stöðu drengja í grunnskólum sem haldin verður 24 febrúar n.k. kl. 9 – 16 á Grand hotel og er ráðstefnan öllum opin. Starfshugsun og staðalmyndir, karlmennska og drengjamenning verður þar til umræðu. Ráðstefnan ber yfirskriftina Drengjamenning í grunnskólum – Áhrif- Afleiðingar – Aðgerðir. Fræðimenn munu þar fjalla um stöðuna og kynntar verða aðgerðir sem geta bætt stöðu drengja innan skólakerfisins. Ráðstefnan er haldin á vegum Reykjanesbæjar, Garðabæjar, Seltjarnarnesbæjar og Mosfellsbæjar í samvinnu við menntamálaráðuneytið, KHÍ og Heimili og skóla – landssamtök foreldra . Hægt er að fá nánari upplýsingar inn á khi.is og heimiliogskoli.is. Skráning fer fram á Congress.is. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að mæta og kynna sér þessi mál.
Helga Margrét Guðmundsdóttir
Myndin: ...Svo nefnir hún krútt-kynslóðina sem sé að ryðja sér til rúms. Holdgervingar þeirrar kynslóðar séu Mugison og strákarnir í Sigur Rós (sjá mynd) sem séu voða krúttlegir strákar. Þetta hefur hún eftir vinkonu sinni sem hún segir sérfræðing í málinu...
- Myndin er fengin af netinu.