Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvatt til sameiningar slökkviliða suðvesturhornsins
Mánudagur 27. júní 2005 kl. 12:44

Hvatt til sameiningar slökkviliða suðvesturhornsins

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir í viðtali við Slökkviliðsmanninn að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að slökkviliðin á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Reykjanesi, Keflavíkurflugvelli og í Árnessýslu sameinist í eitt eða auki að minnsta kosti samstarf sín á milli verulega.

„Lið af þessari stærðargráðu getur haft afl til þess að takast á við verkefni, sem við erum ef til vill vanbúin til nú. Það nýtist betur til eftirlits og forvarna, það getur komið upp viðbúnaði við áföllum á borð við hryðjuverk og farsóttir, það getur haft betri viðbúnað vegna mengunarslysa. Síðast en ekki síst er það líklegt til að geta tekið við verkefnum á borð við eld í skipum á hafi úti, jafnvel stórum farþegaskipum. Getum við það nú? Mikilvægast er að í slíku liði myndi felast mikil hagkvæmni fyrir sveitarfélögin við uppbyggingu búnaðar og menntun starfsmanna og gerir þeim kleift að mæta auknum kröfum um þjónustu," segir Jón Viðar.

Hann segir einnig í viðtalinu, að hann telji að öflugt lið á Faxaflóasvæðinu geti orðið hluti af viðbúnaði víðar á landinu ásamt til dæmis tveimur öðrum öflugum slökkviliðum á landsbyggðinni.

Í Slökkviliðsmanninum segir Vernharð Guðnason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, að framtíð slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli sé best tryggð með því að Íslendingar taki að sér rekstur slökkviliðsins. Verði sú raunin sé komin góður grundvöllur fyrir enn frekari samruna slökkviliða á suðvesturhorni landsins og hægt sé að færa skynsamleg rök fyrir því að sameina öll slökkvilið frá Borgarnesi til Keflavíkurflugvallar og jafnvel slökkviliðin fyrir austan fjall.

Þetta kemur fram á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024