Hvar voru foreldrar?
-Hundruðir unglinga söfnuðust saman í miðbæ Keflavíkur um síðustu helgi eftir að formlegri dagskrá ljósanætur á föstudegi og laugardegi lauk. Ýmsir aðilar sem koma að forvarnamálum í Reykjanesbæ hafa áhyggjur af því ástandi sem skapaðist í miðbænum.
Mikið bar á ölvun unglinga í miðbæ Keflavíkur sl. föstudags- og laugardagskvöld og höfðu lögreglumenn afskipti af fjölda unglinga vegna brota á útivistartíma og vegna áfengisneyslu. Nokkur dæmi voru um að foreldrar unglinga keyrðu þau aftur í miðbæ Keflavíkur, eftir að lögregla hafði keyrt unglingunum heim. Víkurfréttir hafa heimildir fyrir því að töluverður fjöldi ungmenna búsettum í nágrannasveitarfélögum Reykjanesbæjar hafi verið í miðbæ Keflavíkur um helgina og að Útideild Hafnarfjarðar hafi verið að störfum í Keflavík til að fylgjast með unglingum úr Hafnarfirði. dagbók lögreglunnar í Keflavík segir að á föstudagskvöldið hafi mikill fjöldi unglinga safnast saman í miðbænum eftir útitónleika sem lauk klukkan 22. „Lögreglan og útideild höfðu afskipti af nokkrum unglingum vegna útivistarbrota. Voru ungmennin ýmist sótt af foreldrum eða þeim ekið heim. Of mikið bar á ölvun meðal unglinganna og hafði lögreglan afskipti af nokkrum þeirra sem voru búin að neyta áfengis. Áfengi, bjór og landi var tekinn af nokkrum þeirra og einnig var nokkru hellt niður af áfengi. Einn maður gisti fangageymslu vegna ölvunar,” segir í dagbók lögreglunnar fyrir föstudagskvöldið. Í dagbókinni fyrir laugardagskvöldið er áfram greint frá fjölda unglinga sem safnast höfðu saman í miðbænum. Þar segir. „Lögreglumenn höfðu afskipti af fjölda ungmenna í miðbænum sem færð voru í öryggismiðstöð þar sem útideild og fjölskyldu- og félagsþjónusta var til húsa. Var það vegna brota á útivistarákvæðum og áfengisneyslu. Voru ungmennin sótt af foreldrum sínum eða ekið heim af starfsfólki útideildar. Talsvert var tekið af áfengi og “landa” og einnig einhverju hellt niður.”
Ölvun meiri á föstudagskvöld
Sigurður Bergmann varðstjóri Lögreglunnar í Keflavík var útivarðstjóri lögreglunnar um helgina og segir hann að hundruðir unglinga hafi safnast saman í miðbænum bæði á föstudags- og laugardagskvöld. Sigurður segir að ölvun hafi verið meira áberandi á föstudagskvöldið. “Við helltum meira niður af áfengi á föstudagskvöldið en þá var ölvun á meðal unglinganna áberandi meiri en á laugardagskvöldið,” segir Sigðurður en Útideild Reykjanesbæjar vann náið með lögreglunni um helgina. “Starfsmenn Útideildarinnar gengu um á meðal unglinganna með lögreglunni og að þeirra mati var mikið um utanbæjarunglinga í bænum á laugardagskvöldið. Þeir unglingar sem útideild og lögregla könnuðust við og höfðu ekki aldur til útiveru eða voru sjáanlega undir áhrifum áfengis eða höfðu áfengi undir höndum voru keyrð heim til foreldra eða foreldrar komu og sóttu þau,” segir Sigurður en vill taka það skýrt fram að engin ólæti hafi verið í unglingunum þegar lögregla hafði afskipti af þeim þrátt fyrir mikla ölvun þeirra á meðal. Það eina sem hægt var að setja út á hegðun unglinganna, fyrir utan áfengisneysluna, var árátta þeirra til að henda frá sér tómum bjórflöskum og voru því flöskubrot um allan miðbæinn þegar birti á sunnudeginum.
25 lögreglumenn voru á svæðinu
Karl Hermannsson yfirlögregluþjónn segir að ástandið sem skapaðist um helgina í miðbænum hafi minnt á fyrri tíma þegar svokallað Hafnargötuvandamál var til staðar. Þessi mál hafa verið í ágætis standi síðustu ár, sem sé árangur af markvissri forvarnastefnu bæjarins og samvinnu sveitarfélaga og foreldra.
Karl segir að mikil ölvun hafi verið meðal unglinga á föstudagskvöldinu þegar þeir sóttu útitónleika í miðbænum. Hann og fleiri hafi varað við því að halda þessa tónleika á föstudagskvöldi og það sem hann hafi óttast hafi gerst og orðið jafnvel enn verra. Með þessu sé verið að bjóða hættunni heim. Foreldrar séu ekki til staðar og unglingarnir falli inn í næturlífstemminguna í miðbænum. Þegar þetta sé skipulagt af bæjaryfirvöldum í tengslum við Ljósanótt, sem eigi að vera fjölskylduhátíð, þá sé verið að gefa skilaboð til foreldra um að nú sé Ljósanótt og þá sé allt í lagi að unglingarnir safnist eftirlitslaust saman í miðbænum. Á þessa tónleika hafi einnig komið unglingar frá nærliggjandi sveitarfélögum og unglingar fjölskyldna sem sótt hafi bæinn heim á Ljósanótt. Þetta er fyrst og fremst vandamál foreldra en ekki unglingavandamál og þeir sem skipuleggja þetta séu bæjaryfirvöld.
Karl segir að hringt hafi verið í foreldra og þeir beðnir um að sækja börn sín, en nokkur dæmi hafi komið upp þar sem foreldrarnir hafi ekið börnum sínum í miðbæinn aftur. Gerðar séu skýrslur um öll afskipti af unglingunum og þær sendar til félagsmálayfirvalda.
Aðspurður segir Karl að talsvert hafi verið um að lögreglumenn hafi hellt niður áfengi hjá unglingum, bæði landa, bjór og sterku áfengi.
Karl segir að enn meiri fjöldi unglinga hafi safnast saman í miðbænum á laugardagskvöldinu, en þótt ölvun meðal þeirra hafi ekki verið eins almenn og á föstudagskvöldinu, þá hafi hún samt verið allt of mikil. “Við gerðum okkar besta. Við vorum með mikið lið lögreglumanna í miðbænum,” segir Karl en alls voru 25 lögreglumenn tiltækir á svæðinu á laugardagskvöldið, þar af voru 14 lögreglumenn í miðbænum, auk björgunarsveitarmanna og starfsmanna Útideildar.
Karl segist vona að þetta sé ekki það sem koma skal,að foreldrar leyfi börnum sínum að haga sér með þessum hætti og allir leggist á eitt að koma í veg fyrir að svona ástand skapist aftur.
Það verði að vanda skipulagningu á skemmtanahaldi fyrir þennan aldurshóp á Ljósanótt, annars megi búast við að Ljósanóttin fái á sig svipaðan stimpil og “Halló Akureyri” á sínum tíma.
Verið að skoða að beita sektum
“Útideildin okkar og lögregla hafa starfað mjög vel saman á undanförnum árum og við erum fljót að skynja ef eitthvað er að fara á annan veg en við viljum. Við sáum því fljótt að of margir foreldrar voru afskiptalausir um börn sín, sérstaklega á aðfararnótt sunnudags og við viljum strax ná til þessara barna og foreldra þeirra,” segir Stefán Bjarkason framkvæmdastjóri menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar. Hann segir foreldra þeirra barna sem voru í miðbæ Keflavíkur fram á nótt um helgina, langt umfram útivistartíma, hafa brugðist. Það sem snúi að löggæslu, Útideild og Reykjanesbæ hafi gengið mjög vel. “En það er ótrúlegt að maður þurfi að spyrja sig þeirrar spurningar hvað þurfi að ganga langt til að vekja foreldra þeirra barna sem voru í miðbænum langt umfram útivistartíma? Það er auðvitað gríðarlega svekkjandi að horfa á unglinga koma aftur niður í bæ korteri eftir að þeim var ekið heim, af Útideild eins og virðist hafa gerst í nokkrum tilvikum.”
Stefán segir að nú sé verið að íhuga þann möguleika að beita sektargreiðslum ef um ítrekuð afskipti Útideildar af sama unglingi sé að ræða. “Það er verið að ræða það núna að láta þá foreldra, sem ítrekað virða ekki útivistartíma, greiða fyrir rekstur Útideildarinnar sem þýðir það að við ítrekuð brot þá verður sektum beitt. Við viljum öryggi fyrir unglingana okkar og til þess er Útideildin. Flestir foreldrar vinna með okkur en það er ljóst að það eru einnig of margir foreldrar sem leyfa börnum sínum að brjóta útivistarreglur og kaupa jafnvel áfengi fyrir þau.”
Stefán segir að foreldrar sem leyfi börnum sínum að vera úti á næturnar um helgar sýni mikið andvaraleysi og jafnvel afskiptaleysi. “Mikil vakning hefur verið meðal foreldra í Reykjanesbæ og öflugt starf innan foreldrafélaga og foreldraráða grunnskólanna (FFGÍR) en sumir foreldrar virðast ekki skilja að unglingar skynja afskiptaleysi sem andstæðuna við ást. Ég hef alltaf haldið því fram að andstæðan við ást sé ekki hatur, heldur afskiptaleysi. Við foreldrar erum kannski orðnir of eftirgefanlegir hvað varðar útivistartíma barnanna okkar. Við þurfum alltaf að halda vöku okkar og vita hvar unglingarnir okkar eru hverju sinni og hvað þeir eru að aðhafast. Þessi helgi var viðvörun til okkar allra,” segir Stefán, en mikil vinna hefur verið lögð í íþrótta- og forvarnastarf í Reykjanesbæ. “Við erum að vinna heilmikið forvarnastarf, að ýmiss konar íþrótta- og tómstundamálum og heilmikið af öðrum góðum verkefnum. Þetta forvarnarstarf skilar einungis árangri ef foreldrar taka virkan þátt.”
Að sögn Stefáns hefur hann nokkur dæmi um að foreldrar kaupi áfengi handa börnum sínum. “Rök þessara foreldra eru yfirleitt á þá leið að þau vilji frekar kaupa áfengi handa unglingnum í stað þess að unglingurinn sjálfur sé að kaupa sér “landa”. Þetta eru sorgleg rök og með þessu eru þeir að samþykkja neyslu áfengis.”
Stefán vill hins vegar koma því skýrt á framfæri að hann vilji ekki taka ábyrgðina alfarið af unglingunum. “Þetta er líka spurning um ákvörðun unglingsins. Þau sem tóku ákvörðun um að neyta áfengis þessi kvöld verða að axla þá ábyrgð,” segir Stefán. “Útivistarátökin og forvarnarverkefnið “Reykjanesbær á réttu róli” hafa verið að skila góðum árangri og við þekkjum ekki lengur þetta svokallaða “Hafnargötuvandamál”. Útideildin hefur aðeins þurft að hafa afskipti af tiltölulega fáum unglingum sem hafa misstigið sig, en um helgina voru höfð afskipti af of mörgum og of ungum börnum. Við munum strax taka á þessu, ræða við foreldrafélög og unglingana sjálfa til að fyrirbyggja að þetta fari í verri farveg,” segir Stefán að lokum.
Markmið Ljósanætur skýr
Steinþór Jónsson formaður Ljósanæturnefndar segir að í heildina hafi Ljósanótt gengið gríðarlega vel og að jafnvel veðrið hafi snúist Suðurnesjamönnum á sveif meirihluta laugardags. Steinþór segir það miður, að sú umræða sem hér á sér stað, sé vegna foreldra sem virði ekki útivistartíma barna sinna. “Frá upphafi Ljósanætur hafa dagskráratriði verið sett þannig fram að tryggt sé að um fjölskylduhátíð sé að ræða. Lok hátíðarinnar hefur verið fyrr en þekkist vegna þeirra áherslu sem við lögðum í upphafi á að Ljósnótt yrði skemmtileg fjölskylduhátíð. Markmið Ljósanætur eru mjög skýr hvað þetta varðar og því ákveðið að stilla dagskráratriðum innan lögbundins útivistartíma unglinga,” segir Steinþór og bætir við að á hverju ári hafi markmiðum Ljósanætur verið fylgt eftir. “Við höfum nú sem aldrei fyrr unnið með lögreglu, útideild og bæjaryfirvöldum til að fyrirbyggja glufur eða vandamál í dagskránni sem gætu orsakað uppákomur unglinga í miðbænum eftir að dagskrá lýkur og er ástæða til að þakka lögreglu, útideild, björgunarsveit og bæjaryfirvöldum sem komu að þessum málum fyrir frábært starf og undirbúning til að þessi markmið Ljósanætur myndu m.a. haldast.”
Að mati Steinþórs gekk framkvæmd Ljósanætur mjög vel, en segir þó foreldra einhvers hóps unglinga sem voru í bænum fram á nótt fá falleinkunn. “Allir þeir aðilar sem koma að öryggismálum Ljósanætur hafa bæði ábyrgð og vald til að taka á þessum hlutum. En þegar við fáum upplýsingar um það að foreldrar séu í einhverjum tilfellum að vinna gegn útivistarreglum barna sinna og þar með bregðast sínum þætti í dæminu þá gerir það þessum aðilum mjög erfitt fyrir. Það er ergilegt að þessi fáu tilfelli skuli skapa þá umræðu sem hér er komin upp. Það er auðvelt að taka á þessu, en það verða foreldrarnir að gera með okkur. Það er ekki hægt að komast lengra en heim að dyrum hjá fólki því á heimilunum þarf að fara fram innra starf og fylgja hlutunum eftir.”
Eftir hverja Ljósanótt hefur verið sest niður og framkvæmd hátíðarinnar rædd. Steinþór segir að farið sé í gegnum öll atriði og komið fram með tillögur að útfærslum svo betur megi fara næst. “Við höfum eftir hverja Ljósanótt farið yfir hátíðina og glaðst yfir því sem vel hefur farið fram og reynt að finna leiðir í þeim málum sem betur hefðu mátt fara. Við höfum rætt þetta mál á fundum hjá okkur og við munum án efa reyna að finna nýjar leiðir til að komast hjá þessum uppákomum. Eftir alla þá vinnu sem lögð var í þessa þætti held ég að við verðum að vinna meira í gegnum foreldrafélög og inn á heimilunum til að fólk skilji hvað það er mikilvægt að þau standi sig í stykkinu á hátíð sem þessari barninu til heilla. Ég vil því að lokum nota tækifærið og þakka þeim foreldrum sem sinna vel sínu uppeldishlutverki fyrir þátttöku í þessu með okkur, en þessi hópur foreldra er vissulega í miklum meirihluta.”