Hvar er mannúðin þegar á reynir?
Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar gagnrýnir starfshætti Útlendingastofnunar í málefnum fólks á flótta
Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi, gagnrýnir Útlendingastofnun harðlega í færslu á Facebook í gær. Tilefnið er frétt Vísis þess efnis að vísa eigi sýrlenskum hjónum úr landi ásamt tveggja ára dóttur þeirra og ófæddu barni. Umsókn þeirra um hæli verði ekki tekin til meðferðar hjá Útlendingastofnun.
Guðbrandur veltir því upp hvort ekki væri rétt að leggja Útlendingastofnun niður og segir í færslu sinni: „Hvaða rugl er þetta? Kannski er það bara hin fínasta hugmynd að leggja Útlendingastofnun niður.“
Fólk á flótta kemur ekki fyrst til Íslands
Í samtali við Víkurfréttir í dag hafði Guðbrandur þetta um málið að segja:
„Ég hef lengi átt erfitt með að skilja vinnubrögð Útlendingastofnunar, bæði hvað varðar móttöku á flóttafólki en einnig hvernig hugsað er um þau sem þurfa að bíða svo vikum og mánuðum skiptir eftir úrskurði hér í Ásbrú, við óviðunandi aðstæður. Það er eins og eini tilgangur Útlendingastofnunar sé að koma fólki úr landi og beitir stofnunin ítrekað fyrir sig svokallaðri Dyflinnarreglu. Þessi regla er þannig að heimilt er að senda viðkomandi hælisleitanda til þess lands innan Schengen sem hann kom fyrst til. Þessi regla er ómannúðleg að mínu mati, enda hafa forsvarsmenn ESB boðað breytingar á henni.
Það kemur enginn flóttamaður fyrst til Íslands og í þessu tilfelli er um að ræða fjölskyldu sem kemur fyrst til Grikklands þar sem aðstæður eru óboðlegar fyrir flóttafólk.
Það eru yfir 70 milljónir manns á flótta í heiminum og þar af er helmingurinn börn. Við eigum að taka miklu betur á móti fólki á flótta. Hvar er mannúðin þegar á reynir?
Ég mótmæli því að þessi fjölskylda verði send úr landi,“ sagði Guðbrandur Einarsson að lokum.