Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvalir sýna sig við landsteinana
Miðvikudagur 16. janúar 2008 kl. 11:27

Hvalir sýna sig við landsteinana

Nokkuð hefur borið á ýmsum tegundum hvala upp við harða land síðustu misseri. Íbúi á Þórustíg hafði samband við VF í gær þar sem hann sat við eldhúsgluggann og horfði á hnúfubak á svamli við landsteinana. Þegar blaðamann bar að garði var hvalurinn kominn lengra út á Stakksfjörðinn og mátti greinilega sjá blásturinn frá dýrinu. Á þessum slóðum hefur einnig sést til annarra hvalategunda að undanförnu. Helga Ingimundardóttir, sem rekur hvalaskoðunarbátinn Moby Dick, segir það harla óvenjulegt að hvalir láti sjá sig svo nærri landi á þessum árstíma.

Morgunblaðið greinir í gær frá tveimur njarðvískum kæjakræðurum sem komust í návígi við hnúfubak á leið þeirra frá Njarðvík inn í Voga. Dýrið sýndi ræðurunum mikinn áhuga, enda eru hnúfubakar í eðli sínu forvitnir.  Gerðist þessi svo nærgöngull að um tíma óttuðust ræðararnir og bræðurnir,  Andri Þór og Ari Gauti Arinbjarnarsynir,  að bátum þeirra myndi hvolfa. Héldu þeir í bát hvort annars til að koma í veg fyrir það. Um stórt dýr var að ræða en hnúfubakurinn getur orðið allt að 17 metrum að lengd og 40 tonn að þyngd.

Í ágúst á síðasta ári birti Víkurfréttir einstakar myndir af hnúfubak sem elti sílatorfu alveg upp í fjöruborðið við Keflavíkurhöfn þannig að svo virðist sem þetta sé að vera nokkuð algeng sjón hér við harða land.

Myndir: Þessi hnúfubakur gerði sig heimankominn við fjöruborðið í Keflavík í haust þar sem hann skóflaði í sig gómsætri sílatorfu.

VF-myndir : Ellert Grétarsson.




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024