Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvað sögðu oddvitarnir í Suðurnesjabæ?
Fimmtudagur 19. maí 2022 kl. 11:40

Hvað sögðu oddvitarnir í Suðurnesjabæ?

D-listi og B-listi eiga í viðræðum um samstarf  á komandi kjörtímabili í Suðurnesjabæ og eru viðræður á frumstigi. Víkurfréttir leituðu viðbragða oddvita framboðanna sem buðu frama í Suðrnesjabæ.

Úrslit kosninganna voru þau að Sjálfstæðismenn og óháðir fá þrjá menn kjörna. Framboðið fékk 475 atkvæði eða 29,5%. Bæjarlistinn fékk tvo menn kjörna. Framboðið fékk 427 atkvæði eða 26,5% atkvæða. Samfylking og óháðir fengu tvo menn kjörna. Framboðið fékk 404 atkvæði eða 25,1% atkvæða. Framsóknarflokkurinn fékk tvo menn kjörna. Framboðið fékk 18,9% atkvæða en 304 greiddu framboðinu atkvæði sitt. Auðir seðlar voru 43 og ógildir níu. Kjörsókn var 60,9%.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ákall eftir áherslum Framsóknarflokksins

„Við í Framsókn erum gríðarlega ánægð með úrslit kosninganna. Við viljum þakka traustið sem okkur er sýnt. Þetta er mikill sigur og það er ákall eftir áherslum og stefnumálum Framsóknarflokksins. Það er bara gleði í okkar herbúðum að við höfum bætt við okkur manni í Suðurnesjabæ. Þetta er virkilega jákvætt,“ segir Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ, um úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Suðurnesjabæ um liðna helgi, þar sem Framsóknarflokurinn fékk tvo menn kjörna.

D-listinn enn stærsti flokkurinn í Suðurnesjabæ

„Ég er mjög ánægður með þann stuðning sem D-listinn fékk í kosningunum og allan þann fjölda sem heimsótti okkur og við áttum í samskiptum við fyrir kosningarnar,“ segir Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra, í Suðurnesjabæ.

„Niðurstaðan er að D-listinn er enn stærsti flokkurinn í Suðurnesjabæ þrátt fyrir að miklar breytingar hafi átt sér stað í aðdraganda kosninga. Það var ljóst að baráttan um stuðninginn yrði mikil enda mjög mikið af flottum fulltrúum að bjóða sig fram og stefnumálin lík.

Við fulltrúar D-listans munum leggja okkur fram að vinna að heilum hug fyrir íbúa Suðurnesjabæjar, nú sem endranær. Á listanum er mikið af nýjum og flottum fulltrúum sem hafa unnið gífurlega vel saman og eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið. Framtíð bæjarfélagsins er björt og það er okkar allra að vinna að því að svo verði áfram,“ segir Einar Jón.

Allir vinni saman við bæjarstjórnarborðið

„B-listinn hefur tjáð okkur að hann sé að hefja óformlegar viðræður við D-listann, sem okkur þykir áhugavert í ljósi þess að þessir tveir flokkar eru með minnihluta atkvæða á bak við sig eða 48,8%. En  O-listinn og S-listinn er með 51,6% atkvæða,“ segir Jónína Magnúsdóttir, oddviti Bæjarlistans, þegar hún er spurð út í viðbrögð við úrslitum sveitarstjórnarkosninga í Suðurnesjabæ.

„Við höfum sent öllum kjörnum fulltrúum bréf þar sem við áréttum stefnu okkar um að allir vinni saman við bæjarstjórnarborðið, ekki sé hefðbundinn meiri- og minnihluti. Það er okkar vilji og bíðum við eftir viðbrögðum þeirra við þeirri bón,“ segir Jónína jafnframt.

Bæjarlistinn var stofnaður í byrjun apríl þegar skila átti inn framboðslistanum til yfirkjörstjórnar.

„Að fá 427 atkvæði í kosningunum, með tæp 27% fylgi er að mati Bæjarlistans stórsigur og eftirtektarverður árangur fyrir nýtt framboð,“ segir Jónína.

Grunaði snemma að B og D myndu byrja samtal sín á milli

„Okkur fannst tími til kominn að bjóða fram undir S-listanum aftur, en hann hafði boðið fram í Sandgerði í nokkur skipti fyrir sameiningu Sandgerðis og Garðs. Við renndum nokkuð blint í sjóinn þar sem við vorum með mikið af nýju fólki á listanum og þar á meðal engan sitjandi bæjarfulltrúa, þó svo ég hafi setið í átta ár í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar fyrir sameiningu,“ segir Sigursveinn Bjarni Jónsson, oddviti Samfylkingarinnar og óháðra, sem bauð fram til bæjarstjórnar í Suðurnesjabæ og fékk tvo bæjarfulltrúa kjörna.

„Við vorum þó vongóð um að vera flokkurinn sem myndi vera í lykilstöðu til að mynda meirihluta og eru því úrslitin að vissu leyti vonbrigði. Okkur grunaði þó snemma í kosningabaráttunni að ef svo færi að B og D næðu meirihluta bæjarfulltrúa að þeir flokkar myndu byrja samtal sín á milli, enda líkar áherslur og lítið um breytingar á stjórnun eða rekstri í þeirra málefnaskrám,“ segir Sigursveinn.