Hvað er skynsamlegt að gera samfélaginu til heilla?
- segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS orku. Umræða um framkvæmdir við gígaröð Eldvarpa á Reykjanesi
Framkvæmdir við borteig við gígaröð Eldvarpa á Reykjanesi í landi Grindavíkurbæjar hafa vakið mikla athygli á undanförnum dögum. Ármann Halldórsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Grindavíkurbæjar og Ómar Ragnarsson voru í viðtali í Kastljósi þann 3. apríl vegna umræðunnar og sagði Ómar í viðtalinu að það þurfi að fara varlega við að gera svæði eins og þau sem eru í kringum Eldvörpin að iðnaðarsvæðum. Hann sagði það einnig merkilegt við þetta svæði að undir því sé sameiginlegt orkuhólf með Svartsengi og að með því að fara í þessa gígaröð og pumpa þaðan upp orku, þá sé verið að flýta fyrir hinum óhjákvæmilegum endalokum og að orkan eigi eftir að ganga til þurrðar.
Ármann benti á að aðdragandi framkvæmdanna sé búinn að vera langur eða sjö ár og hann tók einnig fram að allir umhverfisþættir hafi verið metnir. „Eldvörp eru í rammaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Ég veit ekki hvernig við ætlum að ná upp orkunni án þessara borteiga. Það er tæknilega ekki hægt,“ sagði Ármann í Kastljósinu. Ármann sagði að Grindavíkurbær hafi gengið langt til þess að lágmarka rask á náttúrunni við framkvæmdirnar og að það sé leitt að sjá hraunið fara en þetta þurfi að gera til þess að ná orkunni upp. Þá benti Ármann einnig á það að ágangur ferðamanna sé mikill á svæðinu og að átroðningur þeirra sé mögulega að eyðileggja gígana en hefja á framkvæmdir í kringum gígana og búa til slóða og leiðir til þess að vernda svæðið enn betur gegn átroðningi og svo að raskið á svæðinu verði sem minnst.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS orku var einnig í þættinum en HS orka stendur að framkvæmdunum. Ásgeir sagði að það væri þeirra hlutverk að uppfylla þarfir samfélagsins, með orkuútvegun, ekki eingöngu raforku, heldur líka ferskvatni, neysluvatni, ásamt heitu vatni og hitaveituvatni, hann tók það líka fram að skoða þurfi framkvæmdirnar í samhengi. Öll leyfi hafi verið til staðar fyrir framkvæmdirnar og núna þurfi að auka framleiðslu á heitu vatni fyrir Suðurnesin. „Þetta er líklega heppilegasti staðurinn til þess. Það er ekki þar með sagt að verði reist orkuver í Eldvörpum. Það er hægt að leiða jarðhitavökvann nokkuð langan veg frá gígaröðinni, til dæmis að Svartsengi eða áleiðis til sjávar og vinna þar úr orkunni,“ sagði Ásgeir. Þá sagði Ásgeir að lokum að kröfurnar hafi aukist og vaxið og að gerðar séu meiri kröfur í dag hjá orkufyrirtækjum en áður. „Það er líka jafn líklegt eða rétt, ef væri verið að hefja orkuvinnslu í Svartsengi í dag, þá væri Bláa Lónið líklega ekki til, eða hefði aldrei fengið að verða til. Þá er kannski rétt að staldra við og hugsa, hvað er skynsamlegt að gera, samfélaginu til heilla.“