Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 24. maí 2000 kl. 19:01

Húspistill frá slysamóttökunni

Af þeim 3000 einstaklingum sem leita til slysamóttökunnar árlega eru nokkrir tugir sem koma vegna bruna. Það er hægt að brenna sig á vökva (heitum vökvum, ætandi efnum), hita (eldur, heitir hlutir) og rafmagni. Líkaminn er illa í stakk búinn til að takast á við hitaáreiti. Hann ræður við hitastig á bilinu 35-41°C. Ofhitun eða bruni veldur eyðilegginu á húðinni en hún skiptist í tvö lög, hörund og leður. Við skiptum bruna gjarnan í 3 gráður. 1° bruni lýsir sér sem roði á hörundinu eins og við þekkjum þegar við brennum okkur í sólinni. Ef það koma blöðrur kallast það 2° bruni og er hann dýpri og nær niður í leðrið. Undir leðrinu er fitulag og ef bruninn nær þangað kallast það 3° bruni. Við það að brenna sig, kemur áreiti á tauganemana sem við skynjum sem sviða og verk. Mikilvægt er að kæla brunasvæðið sem fyrst. Nota skal 15-20 gráðu heitt vatn og kæla í 30 mínútur. Með kælingu er fyrst og fremst verið að láta einstaklingnum líða betur þ.e. minnka verk og sviða. Ef bruninn er meira en 10% hjá barni og 15% hjá fullorðnum er kæling nær óhugsandi með vatni vegna hættu á ofkælingu. Oft er nóg að bleyta handklæði með köldu vatni og leggja yfir brunasvæðið þangað til komið er á sjúkrahús. Við á slysastofunni notum mikið grisjur sem heita Burnshield eða Waterjel. Eftir að við fórum að nota þær, hefur endurkomum á slysastofuna vegna bruna fækkað mikið. Ef þær eru notaðar þarf ekki að kæla með vatni á undan heldur eru þær settar beint á brennda svæðið og vafið með gas eða teygjubindi. Við það að fá þessar grisjur á sig hverfur sviðinn yfirleitt strax og skaðinn verður minni. Þær eru látnar vera í 1-2 sólarhringa. Eftir það notum við vasilíngrisjur ef það þarf að hafa áfram umbúðir yfir brunasárinu og skiptum gjarnan um umbúðir á 2-4 daga fresti. Ný húð er viðkvæm. Það þarf að hlífa henni og til varnar þurrki er borin rakagefandi áburður. Brunasár sýkist auðveldlega og því er mikilvægt að halda því hreinu. Ef blöðrur eru heilar eru þær látnar vera óhreyfðar í a.m.k. 24 klst. Ef þær eru sprungnar eru þær klipptar upp vegna þess að annars vill sýkjast undir þeim. Einnig þarf næringarástand þess brennda að vera viðunandi. Á meðan sárið er að gróa þarf því að borða hollan mat og ágætt að taka inn A og C vítamín. Við bruna töpum við vökva úr líkamanum og því er mikilvægt að drekka vel. Brunasár eru mislengi að gróa. 1° bruni grær á 7-10 dögum, 2° bruni á 2-3 vikum en það tekur 3° bruna langan tíma að gróa, jafnvel mánuði því það hefur orðið svo mikil skemmd á vefjum. Ég mæli með að Burnshield grisjur séu með í sjúkrakassanum heima (fást í Öryggisþjónustunni við Hafnargötu) því þær eru sannkallaðar kraftaverkagrisjur á bruna. Kveðja Íris Kristjánsdóttir Hjúkrunarfræðingur á slysamóttöku H.S.S
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024