Húsnes fær leyfi til að byggja 10-11
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur samþykkt að framkvæmdum við byggingu verslunar 10-11, við Hafnargötu 51-55 í Keflavík, verði haldið áfram. Þetta var ákveðið á fundi bæjarstjórnar sl. þriðjudag, en Skipulags- og byggingarnefnd lagði til að byggingarleyfið yrði endurnýjað frá og með 21. júní.Byggingu hússins var frestað fyrir nokkrum vikum, vegna formgalla á grenndarkynningu. Þegar formlegri grenndarkynningu lauk sl. þriðjudag, höfðu þrjár athugasemdir borist frá nágrönnum. Tvær þeirra lýstu ánægju sinni með bygginguna en nokkrir skiluðu sameiginlegu áliti þar sem þeir mótmæltu byggingunni af ýmsum ástæðum. Skipulags- og byggingarnefnd fór yfir fyrirliggjandi gögn og komst að þeirri niðurstöðu að endurnýja ætti byggingarleyfið.