Húsnæði knattspyrnudeildar UMFN bútasaumsteppi í orðsins fyllstu merkingu
-Brýnt að hefja framkvæmdir sem fyrst við nýtt vallarhús
Forsvarsmenn knattspyrnudeildar UMFN buðu fulltrúum íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar í heimsókn á heimavöll þeirra við Afreksbraut á dögunum. „Ljóst er að aðstaða þeirra er ekki eins og hún gerist best og er búningsklefar þeirra t.a.m. enn í aðstöðu sem gerð var fyrir fjórtán árum og átti að vera tímabundin lausn,“ segir í fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs og þakkar fyrir frumkvæði knattspyrnudeildarinnar og tekur undir með þeim að mikilvægt er að bæta aðstöðuna þeirra sem allra fyrst.
„ÍT ráð vill jafnframt leggja áherslu á mikilvægi þess að fylgja stefnu Reykjanesbæjar í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og að unnið sé eftir þeirri stefnumótun sem var samþykkt á 134. fundi íþrótta- og tómstundaráðs þann 17. október 2019,“ segir í afgreiðslu ráðsins.
Knattspyrnudeild UMFN hefur sent bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ erindi vegna framtíðaruppbyggingar UMFN við Afreksbraut. Þar segir meðal annars:
„Árið 2007 flutti knattspyrnudeild UMFN úr vallarhúsinu við Vallarbraut í vallarhús okkar við Afreksbraut 10. Flestir þekkja söguna en húsnæðið sem hýsir starfsemi deildarinnar átti að vera tímabundið til eins árs. Húsnæðið er bútasaumsteppi í orðsins fyllstu merkingu – þrjú sumarhús skeytt saman. Nú, fjórtán árum seinna, stendur tímabundna vallarhúsið enn.
Vallarhúsið er 380 fermetrar. Í húsinu eru þrír búningsklefar, boltageymsla, dómaraherbergi, fundar- og samkomusalur með eldhúsaðstöðu, skrifstofa deildarinnar, þjálfaraherbergi, þvotta- og búningageymsla. Einnig eru útisalerni við húsið.
Aðalstjórn UMFN hefur lýst yfir vilja sínum að fara í framtíðaruppbyggingu á Afreksbraut og telur knattspyrnudeild UMFN það brýnt að hefja framkvæmdir sem fyrst. Knattspyrnudeild UMFN telur það mögulegt að hefja framkvæmdir við nýtt vallarhús og síðar byggja við íþróttahús. Til hliðsjónar má líta til uppbyggingar sem hefur átt sér stað á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Aðstaða knattspyrnudeildarinnar er sprungin og það er komin gífurleg uppsöfnuð viðhaldsþörf, líkt og fram kom í erindi frá knattspyrnudeildinni í nóvember síðastliðnum. Vegna ófullnægjandi uppbyggingar á grasvellinum á sínum tíma þarf að leggja gífurlega vinnu til að tryggja það að völlurinn sé í fullnægjandi ásigkomulagi, líkt og kom fram í erindi Einars F. Brynjarssonar, umhverfisfræðings, á 126. fundi ÍT-ráðs.
Síðasta sumar var mikil vinna lögð í grasvöllinn sem skilaði sér strax í vor. Einnig var farið í umfangsmiklar framkvæmdir á svæðinu, meðal annars lagður gervigrasvöllur, hellulagt og tyrft.
Fyrir utan það að hefja uppbyggingu á nýju vallarhúsi þá telur knattspyrnudeildin mikilvægt að bæta vökvunarkerfi á svæðinu, meðal annars með því að bæta vatnskrönum á svæðið, gróðursetja og bæta aðstöðuna almennt.
Iðkendum í yngri flokkum hafa fjölgað gífurlega á síðustu árum og virðist ekkert lát á. Þar af leiðandi fer æfingasvæði félagsins að verða of lítið til þess að rýma alla iðkendur. Til þess að aðalvöllurinn verði sem bestur er mikilvægt að lágmarka æfingar og leiki á vellinum. Aftur á móti mun nýr gervigrasvöllur nýtast deildinni mjög vel.“