Húsnæði Keilis á Ásbrú auglýst til sölu
Vilja einbeita sér alfarið að menntun. Sameining við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sett á ís.
„Núverandi húsnæði Keilis að Grænásbraut 910 er talsvert of stórt fyrir námsbrautirnar okkar enda fer stór hluti þeirra fram í fjarnámi, einhver hluti í atvinnulífinu og jafnframt í húsakynnum samstarfsaðila. Það er því hluti af endurskipulagningu í rekstri að leigja frekar hluta af núverandi húsnæði í stað þess að vera sjálf í hlutverki útleigjanda líkt og Keilir hefur verið í áraraðir,“ segir Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis á Ásbrú en um síðustu helgi var allt húsnæði skólans auglýst til sölu, alls 5.500 m2 bygging á 22.500 fm lóð. Dótturfélag Keilis, Fasteignafélagið Keilir ehf. er eigandi húsnæðisins.
Nanna segir að síðustu ár hafi verið unnið að því að einblína á kjarnastarfsemina í Keili og leggja áherslu á menntun frekar en rekstur húsnæðis. Keilir hefur t.a.m. undið ofan af leigu á íbúðarblokkum á Ásbrú á síðastliðnum árum og hefur þeim hluta starfseminnar nú verið hætt.
„Það styrkir reksturinn fyrst og fremst að færa fókusinn alfarið að menntun og þeim námsbrautum sem við rekum. Keilir er tiltölulega lítill skóli með námsbrautir á framhaldsskólastigi og við viljum í rekstri leggja okkar orku í og þekkingu þar,“ segir Nanna en rekstur Keilis hefur verið erfiður í nokkuð langan tíma. Þar telur hæst starfsemi flugskóla sem nú hefur verið hætt.
Vinna við sameiningu framhaldsskóla á landinu fór fram á síðasta ári og skoðuð var sameining Keilis og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Hvað varðar sameiningarhugmyndir barna- og menntamálaráðuneytisins á síðastliðnu ári þá var unnin fýsileikakönnun þess efnis og ég get uppljóstrað að þar komu bæði fram kostir og gallar við mögulega sameiningu. FS er rótgróinn og góður hefðbundinn ríkisrekinn framhaldsskóli á meðan Keilir spratt upp úr annars konar nálgun við menntun á sínum tíma. Hugmyndafræðin í Keili og námsbrautir hafa sannað sig í gegnum árin og aðsóknin þar er góð. Því miður hefur sú þróunarvinna og þreifingar í úrvali námsbrauta oft kallað á fjárhagslegt ójafnvægi í rekstrinum og Keilir hefur uppskorið neikvæða athygli af þeirri ástæðu á sama tíma og námsbrautir ganga mjög vel. Samstarf og eða samráð er oftar en ekki af hinu góða og ég trúi því að ráðuneytinu hafa gengið gott eitt til með sínum hugmyndum. Mikilvægast af öllu varðandi sameiningarhugmyndir framhaldsskóla í Reykjanesbæ er þó ekki háð því hvernig íbúar svæðisins vilja sjá menntunarúrræði í heimabyggð út frá þörfum á hverjum tíma. Skólaumhverfi verða að hreyfast og þróast með samfélaginu hverju sinni, en það er akkúrat gott dæmi um einn mesta styrkleika Keilis,“ segir Nanna.
Sameiningarhugmyndir voru settar til hliðar í lok síðasta árs og ráðherra sagði að skoða þyrfti málið betur.