Húsgögn skilin eftir í rigningunni
Einhver góðhjartaður hefur af gæsku sinni ætlað að gefa Rauða Krossinum sófasett , rúmdýnur og sitthvað fleira, sem er vitaskuld vel hugsað, en viðkomandi hefði hins vegar mátt standa svolítið betur að afhendingunni.
Eins og þessar myndir frá í morgun bera með sér var þessum munum sturtað á lóðina framan við húsnæði Rauða Krossins á Smiðjuvöllum. Þar hafa þeir staðið, líklega frá því í gærkvöldi, og rennblotnað í votviðrinu. Auk þess hefur sófinn greinilega orðið fyrir hnjaski þegar honum var sturtað þarna.
Stefanía Hákonardóttur hjá Suðurnesjadeild Rauða Krossins segir það þakkarvert að fólk skuli hugsa til Rauða Krossins en hins vegar vilji öðru hverju koma upp tilvik eins og þetta þar sem húsgögn eru skilin eftir fyrir utan. Þar rigni þau niður og eyðileggist. Oftar en ekki þurfi Rauði Krossinn að útvega flutning og koma mununum til förgunar með tilheyrandi kostnaði.
Stefanía vill benda fólki á að hafa samband í síma 420 4700 á milli kl. 13 og 16:30 ef það hyggst gefa stærri muni eins og húsgögn. Þá sé hægt að gera ráðstafanir til að taka á móti þeim. Það er þó ekki alltaf mögulegt ef t.d. húsnæði hamlar því.