Húsfyllir á styrktartónleikum í Grindavík
Vinir og velunnarar þeirra Birkis Freys Hrafnssonar og Hjördísar Gísladóttur fjölmenntu á Lukku Láka í Grindavík í gærkvöldi þar sem fóru fram tónleikar til styrktar parinu, en ófætt barn þeirra hefur verið greint með alvarlegan hjartagalla og munu þau halda utan til Boston eins fljótt og auðið er eftir fæðingu.
Til að létta undir með þeim verður allur aðgangseyrir lagður inn á reikning sem hefur verið stofnaður í Landsbankanum í Grindavík, en auk þess rann hluti af söluverði veitinga í sjóðinn. Númerið á reikningnum er: 0143-05-63285, kt: 120961-3149.
Á tónleikunum komu fram Kalli Bjarni og Grétar, Óðinn Arnberg og Halli Valli og Smári og er óhætt að segja að viðstaddir hafi skemmt sér konunglega og var stemmningin létt eins og má sjá á myndasafni efst á síðunni.
VF-mynd/Þorgils: Þau Hjördís og Birkir létu sig ekki vanta á tónleikana.