Húsfyllir á opnum fundi með Sigmundi Davíð í Reykjanesbæ
Fullt var út úr dyrum á fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ á miðvikudagskvöld. Sigmundur Davíð var með ávarp í upphafi fundar og fór yfir pólitíska sviðið.
Stjórnarráðsfrumvarpið er vitaskuld fyrirferða mest þessa stundina og fór Sigmundur yfir varnarorð Framsóknar í því sambandi, að með þessu frumvarpi væru völd framkvæmdarvaldsins aukin mjög á kostnað löggjafarvaldsins. Auk þess væri sameining atvinnuvegaráðuneytana varhugaverð enda mikilvægt að standa vörð um sjávarútveg og landbúnað enda sterkir grunnatvinnuvegir forsenda þess að upp úr þeim spretti nýjar atvinnugreinar. Þetta mál bæri hæst í umræðunni á Alþingi í dag þegar ríkisstjórnin á sama tíma ætti að koma fram með mál sem skipta fólkið í landinu máli.
Sigmundur Davíð fór yfir vonbrigðin er hann varð fyrir í samstarfi við minnihlutastjórn Jóhönnu er var skilyrt með afmörkuðum markmiðum, m.a. um að strax yrði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bætt rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs. Fór Sigmundur yfir hræðslu erlendra fjarfesta sem áhuga hafa á fjárfestingum á Íslandi vegna þeirrar óvissu sem er m.a. um skatta- og orkumál.
Ræddi hann mikilvægi legu landsins, mögulegar nýjar siglingaleiðir og þær auðlindir sem við eigum. Þegar siglingaleiðin yfir norðurskautið opnast verður Ísland að miðpunkti í flutningaleiðum heimsins. Það gefur landinu einstakt tækifæri sem umskipunarmiðstöð. Því fylgir þjónusta, verksmiðjur og samsetningariðnaður þar sem hráefni er flutt frá öllum heimshornum, unnið og raðað saman og flutt í allar áttir. Þetta er reyndar ekki í fjarlægri framtíð. Þetta er þróun sem þegar er að hefjast og við verðum að passa okkur að missa ekki af.
Í bókinni „Heimurinn árið 2050“ eftir Laurance C. Smith, prófessor í Kaliforníuháskóla, rekur höfundurinn hvernig líklegt sé að heimurinn þróist á næstu áratugum, ekki hvað síst hvernig verðmæti og vald munu færast til. Þau lönd sem njóta munu mest ávinnings af þeim breytingum, samkvæmt bókinni, eru Kanada, Norðurlönd og ekki hvað síst Ísland. Megin niðurstaða bókarinnar er sú að bæði auður og áhrif muni í auknum mæli færast á norðurslóðir.
Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður, fór yfir skuldamál heimilana og vanmátt ríkisstjórninnar til að leysa úr þeim þáttum. Telur hann stjórnarráðsfrumvarpið ekki koma til móts við þá gagnrýni á þá stjórnunarþætti sem gagnrýndir eru hvað harðast í rannsóknarskýrslunni, en Sigurður sat í þingmannanefndinni sem fjallaði um rannsóknarskýrsluna.
Í framhaldi urðu síðan líflegar og málefnalegar umræður eins og búast matti við á fundi framsóknarmanna. Hátt í 100 manns mættu á fundinn og tóku virkan þátt, segir í tilkynningu frá Framsóknarflokknum.