Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Húsfyllir á minningarstund um þá sem létust í Skildi
Mánudagur 6. desember 2010 kl. 10:43

Húsfyllir á minningarstund um þá sem létust í Skildi

Falleg minningarstund um þá sem létust í brunanum í samkomuhúsinu Skildi í Keflavík þann 30. desember 1935 var haldin í Keflavíkurkirkju í gærkvöldi. Húsfyllir var við athöfnina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lesið var úr nýrri bók Dagnýjar Gísladóttur um brunann í Skildi en þann 30. þ.m. eru liðin 75 ár frá þessum harmleik. Þá söng Karlakór Keflavíkur og flutt voru minningarorð.

Ekkert varð við ráðið í brunanum mikla og á örskömmum tíma brann húsið til kaldra kola og inni brunnu 6 manns, fjögur börn og tvær fullorðnar konur. Þrír létust stuttu síðar af sárum sínum.

Á forsíðu Morgunblaðsins frá þessum tíma segir í forsíðufyrirsögn: „Hryllilegur stórbruni í Kefalvík“. Þar segir jafnframt að 180 börn og 20 fullorðnir hafi ætt að læstum útgöngudyrum og að samkomuhús U.M.F.Keflavíkur hafi brunnið til kaldra kola. Fjögurra barna og tveggja aldraðra kvenna væri saknað og að 20 börn og fullorðnir hafi særst hættulega.

Ekki er vitað til að jafn margir hafi farist í bruna á Íslandi síðan á Sturlungaöld.
Þessi atburður hafði lamandi áhrif á samfélag sem einungis taldi 1.300 manns á þessum tíma. Barnamissirinn var sár og hjá mörgum tók við löng sjúkralega því brunasár gróa seint. Fáir voru í stakk búnir til þess að sinna veiku barni heima svo mánuðum skipti.

Atburðurinn varð til þess að velta upp spurningum um brunavarnir en þeim var áfátt og hafði á það verið bent. Eftir brunann var gerð gangskör í brunavörnum.

Þótt bruninn væri hörmulegur hefði getað farið verr. Margir unnu óeigingjarnt hjálparstarf og komu þannig í veg fyrir enn meira tjón og mannskaða.

Þau sem létust:


Kristín S. Halldórsdóttir 76 ára
f. 4. september 1859, d. 30. desember 1935.
Guðrún Eiríksdóttir, 61 ára
f. 22. júní 1874 í Akurhúsum, Garði, d. 30. desember 1935.
Loftur Hlöðver Kristinsson 10 ára
f. 8. janúar 1925, d. 30. desember 1935.
Borgar Breiðfjörð Björnsson 6 ára
f. 20. júlí.1929, d. 30. desember1935.
Guðbjörg Sigurgísladóttir 7 ára
f. 4. október 1928, d. 30. desember 1935.
Sólveig Helga Guðmundsdóttir 7 ára
f. 21. maí 1928, d. 30. desember 1935.
Anna Guðmundsdóttir 10 ára
f. 28. júní 1925 – d. 31. desember 1935.
Árni Jóhann Júlíusson 8 ára
f. 24. nóvember 1927, d. 31. desember 1935.
Þóra Eyjólfsdóttir 71 árs
f. 11. febrúar 1865, d. 1. janúar 1936.*
* Aðrar heimildir segja Þóru fædda 1878 en Morgunblaðið segir hana
hafa verið 65 ára. Stuðst er við upplýsingar úr Íslendingabók.

Sveinbjörg Alma Þórðardóttir 10 ára

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson