Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Húsfyllir á kynningarfundi um forval
Föstudagur 17. september 2004 kl. 15:00

Húsfyllir á kynningarfundi um forval

Um eitthundrað manns voru á kynningarfundi vegna forvals um verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Grand Hóteli í Reykjavík í gær.  Áhuginn reyndist meiri en aðstandendur forvalsins höfðu þorað að vona og starfsmenn hótelsins urðu að bæta við stólum í salinn til að allir gestir fengju sæti við upphaf fundar.

Gísli Guðmundsson, stjórnarformaður FLE hf., ávarpaði fundarmenn og fagnaði áhuga sem þeir sýndu tækifærum til verslunar og þjónustu í flugstöðinni. Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri FLE, fjallaði síðan um flugstöðina og hlut hennar í ferðaþjónustunni, starfsemi fyrirtækja innan dyra, stækkun flugstöðvarbyggingarinnar og forvalið sjálft. Hann sagði að framtíðarsýnin á Keflavíkurflugvelli væri afar spennandi og möguleikar í atvinnurekstri í samræmi við það. Farþegum myndi fjölga verulega á næstu árum og bjartsýni ríkti í ferðaþjónustu hér á landi.

Höskuldur benti fundarmönnum á að mikil sóknarfæri í viðskiptum væru fólgin í þeirri sérstöðu Íslands að standa utan Evrópusambandsins. Þannig væri unnt að selja öllum farþegum á brottfarasvæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vörur og þjónustu á fríhafnarsvæði en slík starfsemi hefði verið lögð af í flugstöðvum Evrópusambandsríkja gagnvart farþegum á ferð innan ESB.

Stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. hefur sett sér ýmis markmið með forvalinu. Höskuldur nefndi sem dæmi að flóra verslana og framboðs þjónustu yrði fjölbreytt og í heildina væri stefnt að auknu framboði vara á lægra verði en á markaði hér innanlands. Fyrirtæki í rekstri í flugstöðinni yrðu að vera burðug fjárhagslega og geta meðal annars mannað vaktir nánast allan sólarhringinn. Í sumar hefðu verslanir verið opnar í flugstöðinni í 16-18 tíma á sólarhring og jafnvel lengur á mestu annatímum.

Myndin: Frá fundinum á Grand Hótel í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024