Húsafriðunarnefnd ákveður framtíð Sundhallarinnar

Mat sem unnið var af Hjörleifi Stefánssyni, arkitekt verður sent til húsafriðunarnefndar sem mun funda um framtíð Sundhallarinnar í Keflavík á fundi þann 13. ágúst. Vísir.is greinir frá þessu. Þar kemur einnig fram að ysta byrði hússins sé í slæmu ástandi en það er timburklætt að mestu leyti.

Húsafriðunarnefnd óskaði eftir því að Minjastofnun myndi leggja rökstutt mat á varðveislugildi sundhallarinnar en Vatnsnessteinn ehf., hefur stefnt að því í nokkurn tíma að láta rífa sundhöllina og reisa þar fjölbýlishús, þá hafa Hollvinasamtök Sundhallarinnar barist hart fyrir því að húsið verði ekki rifið og að sundhöllin fái að standa en Guðjón Samúelsson hannaði húsnæðið.