Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Föstudagur 7. júlí 2000 kl. 11:08

Hús fyrir fatlaða í Grindavík

Páll Pétursson félagsmálaráðherra, undirritaði í gær samning um byggingu og rekstur sambýlis og leiguíbúða fyrir fatlaða í Grindavík, ásamt Þór Þórarinssyni,framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi (SMFR), og Einari Njálssyni, bæjarstjóra Grindavíkurbæjar. Grindavíkurbær mun stofna einkahlutafélag sem sér um byggingu og rekstur hússins, en ráðgerður kostnaður hefur ekki verið gefinn upp. Stefnt er að því að byggingin, sem hýsa mun sex fatlaða einstaklinga, verði tilbúin til notkunar í byrjun næsta árs. Páll Pétursson sagðist við undirskriftina, vera mjög ánægður með samningsgerðina. „Með samningnum er leitast við að bæta úr mjög brýnni þörf í Grindavíkurbæ, en biðlistar eru þó nokkrir á þessu svæði“, sagði hann. Hann sagði einnig að vilji stæði til að fleiri slík skref yrðu stigin annars staðar á landinu. Þór Þórarinsson, framkvæmdastjóri SMFR, sagði að með samningnum væri brotið blað í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Einar Njálsson, bæjarstjóri Grindavíkur, sagði að það hefði lengi verið baráttumál að búa betur að fötluðum í bænum. „Grindavíkurbær ákvað að stofna sérstakt félag um rekstur og byggingu sambýlisins. Byggingin verður fjármögnuð að hluta með láni frá Íbúðalánasjóði og að hluta með framlagi úr Byggingarsjóði fatlaðra. Það sem upp á vantar, um 20%, er framlag Grindavíkurbæjar,“ sagði hann. Hann sagði að stefnt væri að því að húsið yrði endingargott og myndi falla vel inn í aðra byggð á staðnum. Húsnæðið er tvískipt, en annars vegar er um að ræða sambýli og hins vegar leiguíbúðir fyrir fatlaða einstaklinga. SMFR mun leigja af rekstrarfélagi bæjarins þann hluta sem ætlaður er undir sameiginlegt rými, auk þess að borga starfsfólki laun. Grindavíkurbær og SMFR munu svo í sameiningu leigja út íbúðir til fatlaðra einstaklinga. Félagsþjónusta Grindavíkurbæjar mun veita íbúum þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Húsið verður byggt á lóð við Túngötu 15-17 í Grindavík. Lóðin er í íbúðahverfi, miðsvæðis í bænum þar sem stutt er í alla þjónustu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024