Hús brann í Höfnum
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út klukkan 03:31 í nótt eftir að eldur kom upp í litlu tvílyftu timburhúsi í Höfnum. Húsið var mannlaust þegar eldurinn kom upp.Slökkvistarf gekk mjög erfiðlega vegna ofsaveðurs. Vindhraðinn fór í rúmlega 30 metra á sek. þegar verst var. Einnig fór rafmagn af svæðinu meðan á slökkvistarfinu stóð og við það fór þrýstingur af vatni þannig að ekki var hægt að notast við brunahana og aðeins hægt að nota það vatn í slökkvibílunum sjálfum. Slökkvistarfinu lauk um kl. 05 en húsið var þá talið ónýtt.