Hundurinn er skíthræddur
Hestarnir voru komnir í öruggt skjól
Það eru ekki síst dýrin sem gjalda fyrir lætin sem ganga yfir Grindavík þessa dagana. Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari karlaliðs Grindavíkur í körfu var dasaður þegar hann mætti í viðtal eftir sigurleik hans manna á móti Þór Þorlákshöfn, náði góðum nætursvefni og var nýkominn til Grindavíkur eftir vinnudag, þegar ballið byrjaði.
„Þetta var alveg ný upplifun, maður tók frekar tímann á hléum á milli skjálftanna en hversu langir þeir væru, þetta var á alveg nýju leveli. Það hrundi talsvert úr hillum og skúffur opnuðust. Ég ætlaði mér ekkert að fara en svo fengum við skipun og það var eina vitið eftir á að hyggja. Við lögðum í hann um sjöleytið og þá var strax stríður straumur á Suðurstrandarveginum því það var búið að loka Grindavíkurveginum.“
Jóhann á hund og hesta, dýrin virðist eiga meira bágt en við mannfólkið. „Þetta fer mjög illa í hundinn, hann er einfaldlega skíthræddur, skelfur allur og hristist en geltir ekkert. Þetta fer greinilega mjög illa í blessuð dýrin en við vorum búnir að koma hestunum okkar upp í sveit svo þeir eru öruggir. Ég held að flestir hestar í Grindavík séu komnir í öruggt skjól og kindurnar eru ennþá úti held ég.
Ég og mín fjölskylda erum komin til tengdaforeldra minna í Reykjavík og það hefur ekki staðið á boðum um húsaskjól, ég hef fengið ógrynni skilaboða og þykir mjög vænt um það, meira segja sendi forseti Íslands mér kveðju, ætli ég hefði ekki getað gist hjá honum á Bessastöðum ef húsaskjólið var ekki orðið öruggt,“ sagði Jóhann Þór.