Hundur beit barn í Keflavík
- Lögreglan leitar hundsins og vitna
Níu ára stúlka var bitin illa af hundi í magann og klóruð í andlitið í dag nærri Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Lögreglan á Suðurnesjum greinir frá þessu en málið var tilkynnt lögreglu.
„Stúlkan er mjög skelkuð og erum við að leita að eiganda þessa hunds,“ segir lögreglan í færslu á fésbókinni. Eigandinn er að öllum líkindum búsettur í Heiðarskólahverfinu.
Að sögn stúlkunnar var hundurinn ekki í bandi og er hún nálgaðist hundinn þá beit hann hana. Hundinum er líst sem svörtum og hvítum.
„Við hvetjum eiganda hundsins til að gefa sig fram við okkur hér á Facebook eða með símtali við 1-1-2. Einnig þætti okkur vænt um að heyra í einhverjum vitnum af þessu atviki,“ segir lögreglan í færslunni.
Vettvangurinn þar sem hundurinn beit barnið. Vitni óskast, segir í tilkynningu lögreglu.