Hundrað manns hreinsuðu tonn af rusli úr Sandvík
Tvö og hálft tonn af rusli var hreinsað úr Sandvík á dögunum. Var það árlegt verkefni Bláa Hersins í samstarfi við US Embassy, en þeir bjóða öðrum sendiráðum og umhverfisverndarsamtökum með sér í verkefnin.
Nú í ár mættu um 60 flugliðar úr loftrýmisgæslu US Airforce, ásamt um 40 manns frá bandaríska, danska, sænska, finnska og norska sendiráðinu, Landvernd, Fuglavernd, Höfuðborgarstofu, Reykjanes Geopark og öðrum sjálfboðaliðum sem unnu að hreinsuninni í um það bil þrjá klukkutíma. Körfuknattleiksdeild Keflavíkur sá um að grilla fyrir sjálfboðaliðana. Þá kom einnig sérstök aðstoð frá Köfunarþjónustu Sigurðar, en þeir sköffuðu auka bíl.
Tómas Knútsson, sem fer fyrir Bláa Hernum, vill koma þökkum áleiðis til þeirra sem að verkefninu komu. „Veðrið var frábært, afköstin rosaleg, grillið geggjað og Sandvíkin tveimur tonnum af rusli fátækari.“