Hundar í óskilum
Töluvert er um að hundar séu í lausagangi í Reykjanesbæ og þarf lögreglan oftar en ekki að hýsa þessa hunda sem sakna eigenda sinna. Þegar Víkurfréttir leituðu til lögreglunnar fengust þau svör að það væri þó ekki meira um það að hundar gengju lausir núna en venjulega. Lögreglan nýtir sér samskiptavefinn Facebook vel og þar eru settar inn myndir af hundum sem hafa fundist á vappi um bæinn og fólk er duglegt við að deila þessum myndum. Samkvæmt lögreglunni er þetta að virka vel og oftar en ekki eru eigendur búnir að vitja hundanna innan skamms og því þarf ekki að senda hundana á K9 á Iðavöllum þar sem borga þarf væna summu til þess að leysa hundana út.
Hundaeigendur eru þó vinsamlegast beðnir um að tryggja að hundarnir sínir gangi ekki lausir.