Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hugur í kennurum eftir viku í verkfalli
Mánudagur 27. september 2004 kl. 16:45

Hugur í kennurum eftir viku í verkfalli

Mikill og góður hugur er í kennurum þrátt fyrir að verkfall grunnskólakennara hafi nú staðið yfir í rétta viku og lítt virðist stefna í samkomulagsátt.

Kennarar hafa sýnt góða samstöðu og fjölmennt í verkfallsmiðstöðvar í Reykjanesbæ og að Garðatorgi í Garðabæ segir Sturla Þorsteinsson, formaður Kennarafélags Reykjaness. „Raunar erum við að fara að flytja okkur um set frá Garðatorgi yfir í Álftafell við Íþróttahúsið við Strandgötu í Hafnarfirði vegna mannfjölda. Það hafa verið um 100-150 manns hjá okkur á daginn og hitt húsnæðið var einfaldlega of lítið.“

Sturla segir kennara gera ýmislegt saman til að stytta sér stundir í verkfalli og miklar umræður myndist jafnan þegar kennarar komi saman í verkfallsmiðstöðvunum. „Þá er líka eitthvað um það að kennarar taki sig saman og fari í göngutúra á hverjum degi. Á miðvikudaginn er svo ráðgert að Kennarafélag Reykjaness fari saman á Þjóðminjasafnið.“ Einnig munu fulltrúar úr KR halda út á land og heimsækja kollega sína á verkfallsmiðstöðvum þeirra.

Sturla segir kennara fylgjast vel með þróun mála. „Ég fór til dæmis og ræddi við kennara í Reykjanesbæ í dag og á morgun mun Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, koma við bæði í Reykjanesbæ og Garðabæ. Þar munu þau kynna stöðuna og hlusta á það sem okkar fólk hefur að segja.“

Meðal þess sem verður til umræðu er án efa undanþágubeiðnir sem sumir skólar hafa lagt fram til að sinna kennslu barna með sérþarfir. Þeim hefur öllum verið hafnað en engin beiðni hefur borist frá Reykjanesi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024