Hugur í atvinnurekendum á Suðurnesjum - stofna samtök
Fulltrúar nokkurra fyrirtækja á Suðurnesjum hafa undanfarið unnið að stofnun samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi. Vonast þeir til að ná um og yfir eitt hundrað fyrirtækjum í samtökin sem fengju skammstöfunina SAR, Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi.
Haldinn hefur verið einn undirbúningsfundur og hafa þremenningarnir Guðmundur Pétursson, Ríkharður Ibsen og Halldór Ragnarsson haft samband við marga tugi atvinnurekenda og aðila á svæðinu og fengið mjög góð viðbrögð. Þeir útskýrðu hugmyndafræðina á bak við stofnun samtakanna á fundi nýlega. Hún gengur út á það að vera fyrst og fremst „rödd“ svæðisins.
„Markaðurinn á svæðinu þarf að eignast sterkan málsvara. Samtök sem í væru mörg fyrirtæki á svæðinu myndu sinna því verkefni vel og á margvíslegan hátt. Á Reykjanesi eru skráð um 1600 fyrirtæki. Það þarf að hlúa að rótgrónum fyrirtækjum og einnig að frjóvga jarðveginn þannig að nýir sprotar geti vaxið. Þetta þarf að vera allt í bland,“ sögðu þeir m.a. á fundi sem fulltrúar þrjátíu fyrirtækja sóttu.
Í ljósi hríðversnandi ástands í atvinnumálum á Reykjanesi er talið að samtök atvinnulífs á svæðinu geti haldið sjónarmiðum fyrirtækja hér á lofti og styrkt tengsl þeirra á milli. Hugmyndin er að aðilar að SAR greiði hóflegt árgjald svo hægt verði að halda úti einum starfsmanni til að byrja með.
„Samtökin munu kappkosta að veita félögum góða þjónustu og að vera öflugur málsvari atvinnulífsins á Reykjanesi. Kröftugt markaðs-, nýsköpunar-, og þróunarstarf er forsenda framfara. Nú skiptir sköpum að styrkja svæðið og standa saman. Samstaða er eitt af lykilorðum okkar, nú sem aldrei fyrr og er nauðsynlegt í þeirri erfiðu baráttu sem stendur yfir í atvinnumálum svæðisins,“ sögðu þeir þremenningar.
Stefnt er að stofnun SAR á næstu vikum. Boðað verður til stofnfundar á Ránni sem nauðsynlegt er að verði fjölmennur og sýni þannig samstöðu og samtakamátt Suðurnesjamanna.