Hugmyndir um framleiðslu lífræns úrgangs við Njarðvíkurhöfn
Tankarnir sem verið hafa við Njarðvíkurhöfn um árabil verða þar áfram ef hugmyndir um framleiðslu á lífrænum áburði ná fram að ganga. Eigandi tankanna, Tankastöðin ehf. hefur síðustu misseri unnið að þróun á framleiðslu lífræns áburðar sem gerður er úr meltu sjávarfangs.
Að sögn Guðjóns Ármanns Jónssonar lögmanns og forsvarsmanns Tankastöðvarinnar ehf. hefur eftirspurn eftir slíkum lífrænum áburði aukist síðustu misserin. Víkurfréttir sendu Guðjóni spurningar varðandi tankana og í svari sem hann sendi kemur fram að lagt hafi verið mikið fjármagn í endurbyggingu meltuverksmiðjunnar fyrir nokkrum árum. Meðal annars hafi verið komið upp tölvustýrðum búnaði í samvinnu við stórt norskt fyrirtæki sem ætlaði að tryggja afurðasölu félagsins. Guðjón segir að slæmar markaðsaðstæður hafi orðið fyrirtækinu að falli á þeim tíma.
Heilbrigðisnefnd Suðurnesja ákvað á fundi sínum í júní fyrir rúmu ári síðan að tankarnir skyldu rifnir á kostnað eigenda þeirra. Nefndinni hafa borist margar athugasemdir vegna slysahættu og umhverfislýta sem af tönkunum stafar.
Íbúasamtök Sjávargötu í Njarðvík hafa sent bæjarráði Reykjanesbæjar bréf þar sem m.a. er spurt hvort tankarnir við Njarðvíkurhöfn verði látnir standa þar áfram. Samkvæmt því sem kemur fram í svari Guðjóns Ármanns hefur verið gerður langtímaleigusamningur við Reykjanesbæ til þessarar starfsemi. Að sögn Guðjóns hefur Reykjanesbær fengið greiddar háar fjárhæðir vegna byggingaleyfa, auk lóða- og fasteignagjalda. Segir Guðjón að verksmiðjunni verði komið í gang um leið markaðsaðstæður skapist. Aðspurður segir Guðjón að mælingar á stærstu tönkunum staðfesti að þykkt þeirra sé yfir öllum viðmiðum og því ekkert sem mæli gegn áframhaldandi notkun þeirra en tankarnir eru að stofni til 80 ára gamlir.
Viðar Már Aðalsteinsson framkvæmdastjóri umhverfis- og tæknisviðs Reykjanesbæjar sagði í samtali við Víkurfréttir að reynt hafi verið að fá eiganda tankanna til að flytja þá. „Við höfum boðist til að flytja tankana í Helguvík en það hefur ekki verið áhugi fyrir því meðal eigenda. Í okkar huga er það alveg ljóst að tankarnir verða ekki nýttir.“
Að sögn Viðars Más hefur skipulagsvinna á svæðinu við Njarðvíkurhöfn og Sjávargötu ekki gengið vel og segir hann svæðið erfitt að eiga við. „Það eru ekki bara tankarnir sem eru að trufla skipulagsvinnuna á svæðinu. Olsen húsin standa á svæðinu og nýlega var olíutankur á svæðinu seldur einstaklingi í Vogum sem gerir okkur erfiðara fyrir að skipuleggja svæðið.“
Í starfsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2004 var gert ráð fyrir 3 milljónum króna vegna skipulagsvinnu og jarðvinnu við Sjávargötu og segir Viðar Már að það fjármagn sé uppurið. Á næsta ári verði m.a. ráðist í gerð gangstétta á svæðinu og segir Viðar Már að áfram verði unnið að því að koma tönkunum burt og öðrum eignum sem nýtast ekki á svæðinu.
Myndin: Hluti tankanna við Njarðvíkurhöfn. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.