Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hugmyndir streyma inn í Hugmyndahús Reykjaness
Þriðjudagur 11. nóvember 2008 kl. 18:11

Hugmyndir streyma inn í Hugmyndahús Reykjaness

Nú eru sjö fundir að baki og vel á þriðja hundrað fundarmanna hafa tekið þátt.  Við höfum farið í gegnum orkufrek tækifæri, nýsköpun og sprotafyrirtæki, stöðu verktaka, sjávarútveg og ferðaþjónustu.  Fjöldi hugmynda hefur komið fram og hnitmiðaðar fundargerðir verið ritaðar til að halda utan um Hugmyndahúsið og þróa það áleiðis.  Fundargerðirnar má nálgast á www.xdreykjanes.is, segir Ríkharður Ibsen um Hugmyndahús Reykjaness, vinnuhópa og fundaröð hjá sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ. 


Á miðvikudaginn 12. nóv. verður fundur um trú og lífsgildi í Sjálfstæðishúsinu í Njarðvík kl. 20:00 þar sem formennirnir Skúli S. Ólafsson sóknarprestur í Keflavík og Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur munu leiða fundinn.  Á fimmtudaginn verður svo fundur um heilbrigðismál í þjónustumiðstöðinni á Nesvöllum kl. 20:00 þar sem Konráð Lúðvíksson lækningaforstjóri HSS og Hanna Katrín Friðriksson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra munu stýra fundinum.
 
Hvernig kom það til að þið komuð á þessum vinnuhópum?
Það æxlaðist þannig til að á 225. Laugardagsfundi hjá okkur var mikil umræða um þann ólgusjó sem við erum nú stödd í.  Vildu fundarmenn meina að það væri ekki bara svartnætti framundan heldur væri mikilvægt að leggja kapp á að finna tækifærin í stöðunni.  Það þyrfti að skapa grundvöll svo fólkið gæti fundið kröftum sínum viðnám.  Einangraðist ekki í þessu ófremdarástandi.  Stefnan er að leita að tækifærum í vandamálinu en ekki öfugt.  Því var ákveðið að bregðast við með Hugmyndahúsi Reykjaness.
 
Hvert er markmiðið með vinnuhópunum?
Markmiðið er bæði að leita að nýjum tækifærum í stöðunni sem og að varpa ljósi á þau sem eru innan seilingar.  T.d. er skynsamlegt að horfa sérstaklega í það hvernig við getum aukið við virðiskeðjuna í þeim tækifærum sem við höfum þegar gripið.  Horft er til útflutningstekna og gjaldeyristekna svo sem í nýsköpun, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkufrekum tækifærum.  Virðisskapandi starfsemi.  Enn fremur er útgangspunkturinn að koma með tillögur til stefnumótunar fyrir svæðið við nýjar aðstæður.
 
Hvernig verður unnið úr niðurstöðum vinnuhópanna?
Fyrir liggur að taka saman skýrslu úr öllu hópastarfinu og samræma þær áherslur sem þar koma fram.  Reynt verður í hvívetna að byggja á markvissum fundum og horft í hversu raunhæfar hugmyndir eru bæði til skemmri og lengri tíma litið.  Markmiðið er ekki að skapa neinar töfralausnir heldur stuðla áfram að jákvæðri uppbyggingu á svæðinu þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
 
Eru vinnuhóparnir öllum opnir eða eru þeir einvörðungu fyrir sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ?
Fundirnir eru opnir öllum þeim sem vilja láta gott af sér leiða. Virkjum meira, mannauðinn, reynsluna, þekkinguna, kraftinn, hugvitið og hugsjónina. Það eru allir virkilega velkomnir, sagði Ríkharður Ibsen.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024