HUGMYNDASAMKEPPNI Í GARÐI:
SEX TILLÖGUR AÐ SKRÚÐGARÐI OG ÚTIVISTARSVÆÐIHreppsnefnd Gerðahrepps afhenti á laugardag verðlaunafé fyrir þrjár bestu tillögurnar að skrúðgarði og útivistarsvæði í Garði. Sex tillögur bárust í hugmyndasamkeppni sem efnt var til í tilefni af 90 ára afmæli Gerðahrepps á síðasta ári. Verðlaunafé var hálf milljón sem skiptist þanig niður að 1. verðlaun voru 250 þúsund, 2. verðlaun 150 þúsund og þriðju verðlaun voru 100 þúsund krónur.Það voru landslagsarkitektarnir Björn Jóhannsson og Björn Axelsson sem hlutu 1. verðlaun en samstarfsmaður þeirra var Guðbjörg Björnsdóttir, grafískur hönnuður. Önnur verðlaun hlaut Pétur Jónsson landslagsarkitekt og Ragnheiður Skarphéðinsdóttir landslagsarkitekt hlaut 3. verðlaun.Í álitsgerð dómnefndar, sem var skipuð hreppsnefnd Gerðahrepps og Brynjólfi Guðmundssyni frá Verkfræðistofu Suðurnesja, kom fram að tillögurnar sex hafi allar uppfyllt skilyrði keppnisgagna og dómnefnd þakkar öllum þátttakendum þeirra framlag. Dómnefnd setti sér vinnureglur til að tryggja að allur samanburður væri innbyrðis jafnvægur. Eftirfarandi meginþættir voru sérstaklega teknir til skoðunar. Fagurfræðilegir þættir. Horft á hvernig svæðið kæmi til með að líta út þegar búið væri að setja tillöguna í framkvæmd og gróður kominn í fullan skrúða. Horft til mannvirkja, stíga og gróðurs.Notagildi svæðisins fyrir hinn almenna íbúa. Reynt að meta að hversu miklu gagni svæðið yrði fyrir íbúana þegar það væri fullbyggt. Horft var til daglegrar notkunar, aðgengi, umferðar gangandi og notkunar á skemmtunum og hátíðarstundum.Lagt var lauslegt mat á hversu mikill kostnaður væri við að hrinda tillögunni í framkvæmd. Horft til þess hvort kostnaður væri hóflegur miðið við ávinning af framkvæmdinni.Dómnefnd tók fram að lítill munur var á tillögum sem hlutu 1. og 2. verðlaun.