Húfur handa öllum börnum sem fæðast á Íslandi árið 2010
Í tilefni af 80 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands árið 2010 ætla kvenfélagskonur um allt land að prjóna húfur handa öllum börnum er fæðast á árinu 2010 og vilja konur í kvenfélögunum með þessu senda hlýjar kveðjur til nýrra þjóðfélagsþegna og foreldra þeirra.
Af þessu tilefni komu þær kvenfélagskonur, Sigríður Finnbjörnsdóttir formaður KvenfélagaSambands Gullbringu- og Kjósasýslu og Oddný Þóra Helgadóttir „húfumeistari“ K.S.G.K. með fyrsta húfuskammt að gjöf til barna sem fæðast munu á fæðingardeild HeilbrigðisStofnun Suðurnesja.
Innan K.S.G.K. eru 10 félög með samtals um 1.000 félagskonum: Kvenfélag Grindavíkur, - Keflavíkur, - Gefn í Garði, - Hvöt Sandgerði, - Fjólan í Vogunum, - Garðabæjar, - Álftaness, - Seltjörn Seltjarnarnesi, - Lágafellssóknar og -Kjósahrepps.
Mynd: KSGK konurnar Sigríður Finnbjörnsdóttir og Oddný Þóra Helgadóttir afhenda Önnu Rut Sverrisdóttir yfirljósmóður og Steinu Þóreyju Ragnarsdóttir ljósmóðir fyrsta húfuskammtinn til HSS.