HSS: Uppsagnir og minni þjónusta liggja í loftinu
„Það er nokkuð ljóst er að við skerum ekki niður eitt árið í viðbót án þess að segja upp fólki og minnka þjónustu,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Stofnunin þarf að skera niður um tæpar 73 milljónir króna á næsta ári. Um er að ræða 1,5% niðurskurð eins og öllum heilbrigðisstofnunum er gert að spara. Það gera 22,9 milljónir króna og ofan á þá tölu bætast 50 milljóna niðurskurður sem HSS fékk að fresta frá síðustu fjárlögum.
„Við erum að funda með fulltrúum allra deilda og eininga. Við erum ekki búin að ákveða endanlega hvar verður skorið niður. Það munum við ákveða fyrir lok mánaðarins“.
Sigríður segir að nú takist HSS á við mjög aukið álag á geð- og sálfélagslega sviðinu. „Þar verðum við að bæta í ef eitthvað er. Sá peningur þarf því að koma til viðbótar niðurskurðarkröfum“.
Mynd: Frá starfsmannafundi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fyrir ári. VF-mynd: pket