Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HSS: Skurðstofa opin allan sólarhringinn alla daga ársins
Föstudagur 8. febrúar 2008 kl. 14:45

HSS: Skurðstofa opin allan sólarhringinn alla daga ársins

- „Mikil bylting og lokaskref í átt að alvöru sjúkrahúsi,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSS.

Bylting verður hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í vor þegar tekin verður upp sólarhringsvakt á skurðstofu.  „Við erum að verða alvöru sjúkrahús. Þetta er lokaskref í þá átt,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Með 106 millj. króna  framlagi á fjárlögum á árinu 2008 er þetta gerlegt en tvær glænýjar  skurðstofur á 3. hæð sjúkrahússins í Keflavík hafa staðið auðar síðan í október á síðasta ári. Á fjárlögum er einnig gert ráð fyrir 60 milljónum króna til HSS vegna tilflutnings verkefna frá Landsspítalanum.

Skurðstofurnar í gömlu álmu sjúkrahússins hafa verið opnar fjóra daga vikunnar en með flutningi þeirra skapast pláss fyrir fleiri rúm og segir Sigríður líklegt að hægt verði að fjölga þeim úr 72 í 90 eftir þessar breytingar.

Um er að ræða mikla og dýra þjónustu og ljóst að fæðingadeild sem og slysa og bráðadeild munu njóta góðs af nýju skurðstofunum og vakt þar alla daga ársins eitthvað sem Suðurnesjamenn hafa beðið lengi. Sigríður segir að nú verði hægt að veita heildstæða sjúkrahúsþjónustu en þáttur lyflækninga hefur verið mikið bættur á HSS. „Þetta þýðir að við getum tekið alla bráðakeisara og því ætti akstur til Reykjavíkur í slíkum tilfellum að heyra sögunni til nema í undantekningartilfellum. Með þessu munum við geta eflt allar skurðlækningar,“ segir Sigríður.
Vonast er til að þau tæki sem vantar komi á vordögum og þá verði strax hægt að koma nýjum vöktum á skurðstofum í gang. Sigríður sagði að hún hefði lítinn varnagla á því þannig að ef tækjum myndi seinka af einhverjum ástæðum myndi þetta bíða fram á haust.

Vel hefur gengið að manna stöður á HSS og segir Sigríður það orðið eftirsótt að komast til starfa hjá stofnuninni. Margir sérfræðingar hafa bæst í hópinn á undanförnum árum. Íbúaaukning hefur haft veruleg áhrif á rekstur stofnunarinnar og þá sérstaklega á heilsugæsluþáttinn. Þar var nýlega boðið upp á nýjung sem er hraðþjónusta en um hana er fjallað annars staðar í blaðinu í dag. „Við höfum ekki ennþá fengið viðbótar fjármagn vegna mikillar aukningar íbúa á svæðinu en vonumst til að það eigi eftir að koma. Við höfum fundið mikið fyrir þessu á okkar stóru heilsugæslu,“ sagði Sigríður.

 

Mynd: Úr annarri nýju skurðstofunni sem verður tekin í gagnið með vorinu. Víkurfréttamynd.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024