HSS: Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ mótmæla niðurskurði
Stjórn Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ mótmælir harðlega þeim áformum sem komið hafa fram í fjölmiðlum undanfarna daga um niðurskurð á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þetta kemur fram í ályktun sem fulltrúaráðið hefur sent frá sér en þar segir einnig:
„Lengi hefur verið barist gegn því óréttlæti sem ríkt hefur í fjárveitingum til stofnunarinnar. Á sínum tíma voru fjárveitingar til HSS lagfærðar á aukafjárlögum í samræmi við útreikninga til stofnana miðað við umsvif m.a. út frá fólksfjölda og eðlilegu þjónustustigi. Í því fólst viðurkenning ráðuneytisins á þessari misskiptingu og er nú tími kominn á varanlega viðurkenningu í þessum efnum. Ljóst má vera að niðurskurður hjá ráðuneytum er óumflýjanlegur en þar á bæ er brýnt að huga vel að útfærslum og varast ber að skera niður mikilvæga þjónustuþætti.
Breyting á rekstrarformi skurðstofa HSS hefur víðtæk áhrif á alla starfsemi stofnunarinnar og kippir stoðunum undan mögulegri uppbyggingu. Þegar kreppir að verður að varast að horfa einungis í niðurskurð heldur leggja einnig áherslu á nýjar tekjuleiðir. Á undaförnum árum hafa komið fram ýmsar hugmyndir um virðisskapandi starfsemi sem aukið geti tekjur HSS. Nú er tíminn til að snúa vörn í sókn og hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd. Á fundi Hugmyndahúss Reykjaness um heilbrigðismál komu fram margar hugmyndir um gjaldeyrisskapandi starfsemi. HSS getur orðið leiðandi á þeim vígstöðvum og því ekki skynsamlegt að draga tennurnar úr sóknarmöguleikum stofnunarinnar.
Stjórn Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ getur alls ekki sætt sig við að HSS sem hefur verið olnbogabarn í heilbrigðisgeiranum um árabil sé enn og aftur ákjósanlegasta fórnarlamb niðurskurðarhnífsins. Enn og aftur að taka á sig skerðingu á þjónustu. Enn og aftur sé öryggi þeirra er hennar njóta stefnt í voða. Það er ekki heilbrigt. Þjónustustig í heilbrigðisgeiranum verður ekki varðveitt með því að safna því saman í Reykjavík.
Í ljósi ofnagreindra athugasemda er það skýlaus krafa stjórnar Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ að eftirfarandi nái fram að ganga:
1. Greiðslur ríkisins til HSS taki mið af hinni miklu íbúafjölgun sem orðið hefur á svæðinu og fjárveitingar til stofnunarinnar verði hækkaðar til samræmis við fjárveitingar til annarra heilbrigðisstofnana.
2. Skurðstofum verði ekki lokað með tilheyrandi skerðingu á fæðingarþjónustu.
3. Skurðstofurnar verði nýttar í þágu íbúa og til þess m.a. að opna fyrir aðgerðir annarra en á vegum HSS. Með því skapast möguleikar á stórauknum rekstrartekjum í þágu almenningsþjónustu HSS.
Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu hefur því verið beint til stofnana að koma með tillögur að niðurskurði. Ljóst má vera að flatur niðurskurður er fjarri lagi sjálfgefinn og mjög ósanngjarn nema að grunnur fjárveitinganna verði lagfærður fyrst til samræmis við aðrar heilbrigðisstofnanir. Í samræmi við yfirlýsingar ráðherra þar um hlýtur að vera ljóst að ekki verði ráðist í breytingar nema að vel ígrunduðu máli og þess gætt að skerða sem minnst öryggi þjónustunnar og gæði. "