Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HSS leiðir byltingu í augnskimun með gervigreind
Fulltrúar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og RetinaRisk í verkefninu.
Fimmtudagur 7. mars 2024 kl. 08:10

HSS leiðir byltingu í augnskimun með gervigreind

Hefja fyrstu augnskimun við augnsjúkdómum af völdum sykursýki á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í samstarfi við RetinaRisk

RetinaRisk, sem er fyrirtæki í forystuhlutverki í notkun gervigreindar í heilbrigðisþjónustu, er komið í samstarf við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) um að hefja fyrstu augnskimun við augnsjúkdómum af völdum sykursýki með gervigreind. Skimun hefst í næsta mánuði. Þetta skref markar tímamót í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þar sem HSS tekur í notkun byltingarkennda tækni til að bæta heilbrigðisþjónustu við sína sjúklinga.

Augnskimun með gervigreind frá RetinaRisk mun gera stofnuninni kleift að greina sjónskerðandi augnbotnabreytingar af völdum sykursýki á gríðarlega skilvirkan hátt á stofnunni sjálfri og tilvísa aðeins þeim með staðfestan grun um kvilla til augnlæknis. Þetta minnkar kostnað gríðarlega fyrir sjúklingahópinn í heild sinni ásamt því að stórbæta aðgengi að skimun og til augnlækna fyrir þá sjúklinga sem þurfa á því að halda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum gríðarlega ánægð með samstarfið við HSS og er stofnunin að sýna mikinn nýsköpunarkraft í að taka þessa tækni í notkun,“ sagði Ægir Þór Steinarsson, framkvæmdastjóri RetinaRisk. „Samstarf okkar mun ekki aðeins gera HSS kleift að bjóða upp á skilvirkari greiningu fyrir sjúklinga, heldur einnig að draga verulega úr byrði á heilbrigðiskerfið í heild sinni.“

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja rekur eina stærstu sykursýkissmóttöku landsins með vel yfir 1000 manns í eftirfylgni og hefur getið sér gott orð fyrir einstaklega vel skipulagða nálgun við það starf. Stofnunin þjónar breiðum notendahóp frá mörgum löndum og hefur þurft að nýskapa til að mæta vaxandi þörf sem hefur skilað sér í þeim gæðum sem einkennir starf móttökunnar. Aðgengi að augnskimun á einkareknum augnlæknastofum fer minnkandi samhliða mikilli fjölgun fólks með sykursýki og stöðnun í aukningu á fjölda augnlækna og kallar það á nýja nálgun sem gervigreindin er vel sett til að leysa.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að leita nýrra leiða til að bæta gæði og aðgengi heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa Suðurnesja,“ sagði Alma María Rögnvaldsdóttir, hjá HSS. „Augnskimun með gervigreind er frábært dæmi um hvernig við getum nýtt nýjustu tækni til að gera jákvæðar breytingar á heilbrigðisþjónustu okkar.“

Með þessu nýja samstarfi stefna RetinaRisk og HSS að því að setja nýjan staðal í augnskimun og heilbrigðisþjónustu, sem mun gagnast sjúklingum um allt land.