HSS: Konráð yfirlæknir segir þolmörkum sínum náð og hættir
Konráð Lúðvíksson, yfirlæknir fæðinga- og kvensjúkdómadeildar HSS og starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til 27 ára sagði í ræðu sem hann flutti í gær á starfsmannafundi HSS að sínum þolmörkum hafi verið náð eftir 27 ár í starfi og á meðan 7000 börn hafa fæðst á Suðurnesjum. „Ég ætla sjálfur ekki að sinna starfi sem ég ekki get gefið mig allan í,“ sagði Konráð í ræðunni.
Konráð sagði einnig: „Suðurnesjamenn eru komnir með bísna þykkan skráp til að taka mótlæti af ýmsu tagi. Þeir virðast ætíð geta náð að aðlaga sig að nýjum aðstæðum þótt blóðdreifin að baki sé mis löng. Með dugnaði hefur þeim tekist að breyta draugborginni herstöð í mannvæna samfélagið Ásbrú, sakir óhefts frumkvæðis og framsýni. Smám saman hefur tekist þar að byggja upp samfélag tengt menntun, listum og nýjum iðnaði. Það sem hins vegar fær hinn þykka skráp Suðurnesjamanna að drjúpa er hin augljósa vanvirðing annarra á störfum þeirra og stöðu ekki síst þegar deila þarf úr sameiginlegum sjóðum. Það er eins og stöðugt þurfi að refsa þeim fyrir eitthvað annað sem telja megi þeim til tekna. Þess vegna eru rúmin okkar vantalin þegar deila á fjármunum á þau, á meðan rúmin á Akranesi eru oftalin. Þess vegna kostar minna að liggja í okkar rúmum heldur en í rúmunum á Akranesi, þar sem þau eru blóðugri“.
Ræðan hans Konráðs er í heild sinni hér að neðan:
Mitt elskulega samstarfsfólk og vinir
Það er vissulega kaldur raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir hér í dag, þegar við hér höldum á uppsagnarbréfum í höndum og getum ekki annað. Flestir þeir sem fengu bréfið í hendurnar eru að missa starfið sitt, fáeinir gætu hugsanlega haldið áfram að vinna, við eitthvað sem fellur til án faglegar fullnægju. Við slíkar aðstæður er nærtækast að hver líti í sinn eigin barm og hugi að sínu nærumhverfi og þeirri sorg sem uppsögn ber með sér.
Aðstæður fólksins sem stendur hér með bréfin sín er ærið misjafnar. Sumir eru hér að upplifa höfnun í 3ja eða jafnvel 4ða sinn, sumir eru í byrjun starfsferils síns eftir langt nám eða endurmenntun til þess að geta þjónað þessari stofnun og samfélaginu með kröftum sínum, fóru í námið með það að markmiði, jafnvel eftir hvatingu okkar hinna. Sumir eru einstæðir og eigin fyrirvinna, aðrir eru eina fyrirvinna, þar sem makinn er án atvinnu. Fyrir þetta fólk er sorgin hvað dýpst.
Suðurnesjamenn eru komnir með bísna þykkan skráp til að taka mótlæti af ýmsu tagi. Þeir virðast ætíð geta náð að aðlaga sig að nýjum aðstæðum þótt blóðdreifin að baki sé mis löng. Með dugnaði hefur þeim tekist að breyta draugborginni herstöð í mannvæna samfélagið Ásbrú, sakir óhefts frumkvæðis og framsýni. Smám saman hefur tekist þar að byggja upp samfélag tengt menntun, listum og nýjum iðnaði. Það sem hins vegar fær hinn þykka skráp Suðurnesjamanna að drjúpa er hin augljósa vanvirðing annarra á störfum þeirra og stöðu ekki síst þegar deila þarf úr sameiginlegum sjóðum.
Það er eins og stöðugt þurfi að refsa þeim fyrir eitthvað annað sem telja megi þeim til tekna. Þess vegna eru rúmin okkar vantalin þegar deila á fjármunum á þau, á meðan rúmin á Akranesi eru oftalin. Þess vegna kostar minna að liggja í okkar rúmum heldur en í rúmunum á Akranesi, þar sem þau eru blóðugri. Við erum nefnilega eins og Guðbjörg Sigurðardóttir sagði í viðtali talin annars flokks fólk. Þess vegna hefur fólk hér þurft að standa á rétti sínum af mikilli einurð og hörku til að ná árangri. Tvöföldun Reykjanesbrautar talar sínu máli. Kannski er nú verið að refsa okkur fyrir að ná henni í gegn, áður var það gjarnan að við gátum sótt allt á völlinn.
Ég hef mikla samúð með ykkur kæru samverkamenn, sérstaklega vegna þess að ég þykist vita hvern mann þið hafið að geyma. Hér er mesta framlegð í öllum störfum, og minnstur kostnaður á einingu, a.m.k. á sjúkrahússviði. Hér hefur verið unnið af mikillri trúmennsku og metnaði og við höfum vissulega uppskorðið. Vinnustaður okkar er hinn fallegasti og besti, sem utanaðkomandi dást að þegar þeir heimsækja. Þar sem sjúklingar gleðjast við þá einu hugsun að fá að leggjast hér inn eftir dvöl annarsstaðar, þar sem allir eru stöðugt að gefa af sér og bæta það mannlíf sem ber að garði, enda fáum við launað í stórgjöfum sem raun ber vitni. Því eru þau hryðjuverk sem hér hafa verið framin þeim mun sárari. Sú reiði sem hver maður sem á í hlut hlýtur að finna fyrir má þó ekki verða til þess að henni sé beint að innanbúðarfólki eða við hvort gegn öðru, næg eru þó sárindin fyrir. Ég veit að stjórnendur lögðu sig öll fram á lokasprettinum til að ná eyrum yfirvalda, en án árangurs. Aðeins sagan skráir hvers vegna.
Ég hef hins vegar miklar miklar áhyggjur af því starfsfólki sem þarf að vinna sinn uppsagnarfrest við þær ömurlegu aðstæður sem slíkur frestur hefur í för með sér. Ég tala af nokkurri reynslu, því aðeins í síðustu viku þegar hengingarólin hafði verið hert og aðeins átti eftir að kippa undan stólum breyttist einföld aðgerð sem ég hef gert í hundraða vís í martröð fyrir skjólstæðing minn. Ég fylgdist einnig með konu minni vinna sinn uppsagnarfrest og breytast úr hnarrreistum einstaklingi sem hlakkaði til hvers dags í hokinn einstakling án framtíðarsýnar í starfi. Ég veit að aðrir hér inni þekkja til svipaðra tilvika. Ég ætla sjálfur ekki að sinna starfi sem ég ekki get gefið mig allan í. Mínum þolmörkum hefur verið náð eftir 27 ár í starfi hér og á meðan 7000 börn fæddust hér.
Ég vona að stjórn stofnunarinnar skynji þá ábyrgð sem felst í því að skjólstæðingi sé sinnt við slíkar aðstæður, oft og tíðum með flóknum aðgerðum sem krefjast fullkominnar einbeitni. Að sjálfsögðu verður hver og einn að tala fyrir sig í þeim efnum og taka þá ábyrgð sem hann telur réttasta.
Ég vil einnig biðja ykkur stjórn HSS að íhuga að þau skilaboð sem við náum að skila út í samfélagið tel ég vega mest ef þau bresta á í dag af fullri hörku þannig að þau nái ekki að þynnast út í þriggja mánaða þjarki sem kannski ekkert skilur eftir nema sárindi fyrir starfsfólkið sem hér berst við að vinna af sér uppsagnafrest meir eða minna afhuga. Leyfið þessu fólki að fara frálsu með þeirri reisn sem hægt er að veita því með fullri greiðslu þessa 3 mánuði. Þessir mánuðir skipta ímynd stofnunarinnar engu úr þessu, nema síður sé. Staðreyndum verður ekki þokað nú er aðeins spurning hvernig menn halda á spilunum. Dagsetningin 1.maí breytist aðeins í 1.febrúar.
Ég ætla að kveðja ykkur í bili a.m.k með óskum um guðs náð og gæfu til ykkar og fjölskyldna ykkar.
Konráð Lúðvíksson,
Yfirlæknir fæðinga- og kvensjúkdómadeildar HSS
Myndir: Jóhannes Kr. Kristjánsson og úr einkasafni