HSS eflir samstarf við Landspítala
Landspítali – háskólasjúkrahús og fjögur sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir á suðvesturhorni landsins undirrituðu á mánudag samkomulag um tilfærslu verkefna frá Landspítala til viðkomandi stofnana. Þar á meðal er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en í samkomulaginu felst m.a. að efla á bráðaþjónustu HSS og einnig er gert ráð fyrir að HSS annist sjúklinga með lögheimili á Suðurnesjum sem þurfa á líknandi meðferð að halda eða bíða eftir hjúkrunarými á sjúkrahúsi.
Samkomulagið sem var undirritað byggist á lögum um heilbrigðisþjónustu og er gert í samræmi við tilmæli heilbrigðisráðuneytisins vegna viðbótarfjármuna í fjárlögum ársins 2008 þar sem gengið er út frá að styrkja núverandi rekstur heilbrigðisstofnana á suðvesturhorninu og gera þeim kleift að taka við auknum verkefnum.
Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSS, sagði eftir að samningurinn var undirritaður að hún hefði miklar væntingar til samstarfsins. ,,Við höfum náttúrulega aukið samstarf okkar við Landspítalann verulega á undanförnum árum og erum mjög sátt við það og viljum auka það enn meir. Við erum að hugsa til þess að efla starfsemina á Suðurnesjum og teljum við að með því að formfesta þennan samning gerir það okkur enn auðveldara fyrir.“
Vf-mynd/Stefán - Frá undirritun samningsins