HSS boðar til íbúafundar í Hljómahöll 5. júní
„Við á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja höfum hafið vegferð við stefnumótun fyrir stofnunina með það að markmiði að veita framúrskarandi fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu. Við viljum í því sambandi endilega heyra í íbúum og höfum því boðað til íbúafundar í Hljómahöllinni 5. júní kl. 17,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri HSS en hún tók við starfinu fyrr í vetur.
Guðlaug segir að ætlunin sé að móta stefnu HSS til næstu þriggja ára. „Í stefnunni verður greint frá markmiðum ásamt almennum áherslum og hvernig þeim verði náð. Við munum gera grein fyrir mælikvörðum og viðmiðum sem verða lögð til grundvallar mati á árangri starfseminnar. Stefnan verður síðan staðfest af heilbrigðisráðherra og kynnt síðar á árinu.
Markmiðið er að byggja upp sterka ímynd og efla traust til stofnunarinnar. Til að svo megi verða er mikilvægt að vita skoðanir íbúa á því hvað HSS gerir vel, hvað má gera betur og hvaða áherslur íbúar vilja að verði í starfseminni næstu árin.