Skurðstofur HSS teknar niður
Ekki fýsilegt að uppfæra skurðstofurnar og nýta af Landspítala. Síðasta aðgerð verður í nóvember
Skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verða ekki notaðar sem slíkar um fyrirsjáanlega framtíð og heilbrigðisráðherra hefur því samþykkt að skurðstofurnar verði teknar niður. Skurðaðgerðum á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var hætt fyrir um áratug síðan. Önnur skurðstofan hefur verið leigð út til einkaaðila. Hann mun gera síðustu aðgerðir sínar á skurðstofunni í nóvember næstkomandi.
„Á síðustu árum hefur stofnunin haft tekjur af útleigu á annarri skurðstofunni en hefur einnig þurft að taka á sig viðbótarkostnað á móti. Nú er svo komið að ef ætlunin væri að halda starfsemi á skurðstofum gangandi, hvort sem það væri á vegum HSS, Landspítala eða aðila í einkarekstri eins og nú er, þyrfti að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar við að uppfæra nauðsynlegan tækjabúnað. Slíka fjármuni á HSS ekki til,“ segir í pistli sem Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja skrifar á vef HSS.
„Gerðar voru athuganir á því hvort fýsilegt væri að uppfæra búnað skurðstofanna með það fyrir augum að nýta þær fyrir Landspítala. Þá kæmu áhafnir frá LSH til okkar til að framkvæma svokallaðar dagaðgerðir. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að það reyndist ekki vera fýsilegt. Þá var einnig athugað hvort Landspítali gæti nýtt eitthvað af tækjabúnaði skurðstofanna hjá sér og það reyndist heldur ekki vera,“ skrifar Markús jafnframt.
Forstjórinn segir að hins vegar verði athugað hvort búnaðurinn gæti nýst öðrum stöðum í húsnæði HSS og loks verður athugað hvort aðrar heilbrigðisstofnanir geti nýtt eitthvað af honum.
Markús segir í pistlinum að mikil not séu fyrir það rými sem nú er notað undir skurðstofurnar, enda hefur húsnæðisskortur þrengt verulega að grunnstarfsemi HSS, heilsugæslu og bráðamóttöku, síðustu ár.
Fulltrúar HSS áttu fund með Ríkiseignum á dögunum um framtíðarsýn húsnæðismála og næstu skref verða þau að húsnæðisnefnd Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja mun vinna málið áfram með aðkomu Ríkiseigna og þeirra deilda sem breytingarnar taka til. Að fengnum niðurstöðum nefndarinnar mun HSS ráða arkitekt til að fullmóta tillögur sem verða lagðar fyrir Ríkiseignir, sem mun bera bróðurpartinn af fyrirhuguðum kostnaði við endurbæturnar.
„Það er ljóst að mörgum mun finnast sjónarsviptir af því að leggja skurðstofurnar alfarið niður en takmark stjórnenda og starfsfólks HSS verður að vera að standa vörð um grunnþjónustuna við íbúa, heilsugæsluna og bráðamóttökuna og þar eru húsnæðismálin helsta áskorun okkar. Bæði er það með beinum hætti, þar sem vöxturinn í þjónustuþörf á svæðinu hefur sprengt núverandi húsnæði utan af sér, og ekki síður með óbeinum hætti þar sem aðstaða og góður húsakostur er lykilatriði í að bæta fleira fagfólki við okkar góða hóp og bæta þjónustu við Suðurnesjafólk og gesti okkar.
Það er von mín að þessar aðgerðir muni loks höggva á hnútinn sem hefur haldið aftur af HSS í hartnær áratug og að innan tíðar verði hægt að sjá merkjanlegan mun á þeirri þjónustu sem við á HSS getum veitt hér í heimabyggð,“ segir Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, í pistlinum.