Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HS Veitur hafa greitt 4 milljarða í arð á fimm árum
Laugardagur 28. mars 2015 kl. 07:00

HS Veitur hafa greitt 4 milljarða í arð á fimm árum

- Reykjanesbær hefur fengið 2,1 milljarð. Mælar leysa hemla af hólmi. Greitt eftir notkun.

Arðgreiðslur HS Veitna til eigenda sinna á síðustu sex árum nema 3.845 milljörðum króna. Þar af hefur Reykjanesbær sem stærsti eigandi fyrirtækisins fengið 2,1 milljarð frá árinu 2010. Tekjur HS Veitna á árinu 2014 nam 5,3 milljörðum og var hagnaður 804 millj. kr. Eitt stærsta mál fyrirtækisins á næstu þremur árum er breyting á sölufyrirkomulagi heita vatnsins á Suðurnesjum og verða teknir upp rennslismælar í stað hemla. Þannig verður greitt eftir notkun. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins í sl. viku.

HS Veitur standa afar vel fjárhagslega en eigið fé í árslok nam rúmum 10 milljörðum kr. Raforkunotkun jókst um 19,6% á Suðurnesjum á síðasta ári og um 10% á veitusvæðinu öllu. Aukin raforkunotkun kemur aðallega frá nýjum gagnaverum (netþjónabúum) á Suðurnesjum sem eru stórir notendur. Gjaldskrá fyrir raforkudreifingu hefur verið óbreytt frá 1. janúar 2013. Almenn gjaldskrá miðað við 6.000 stunda notkun er 12% hærri í Reykjavík og 15% hærri hjá Rarik en á Suðurnesjum. Gjaldskrá fyrir heitt vatn er um 8% hærri í Reykjavík en á Suðurnesjum miðað við 1.000 tonna ársnotkun.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Notkun á heitu vatni stóð í stað á milli ári en það sem veldur stjórnendum fyrirtækisins áhyggjum er að sífellt stærri hluti tekna af sölu á heitu vatni á Suðurnesjum fer til kaupa á heitu vatni frá HS Orku en aukningin er 5% á síðustu sex árum. Því hefur verið tekin ákvörðun um að taka upp mæla í stað hemla. Helstu ástæður breytingarinnar á sölufyrirkomulagi heita vatnsins er að sögn Júlíusar Jónssonar, framkvæmdastjóra HS Veitna, þær að hemillinn er í raun ekki sölutæki og nýjustu gerðir hemla hafa reynst ónothæfir. Þá kaupa HS Veitur heita vatnið af HS Orku samkvæmt mæli en selja stóran hluta þess (um 62% af tekjunum) samkvæmt hemlum sem eykur að sögn Júlíusar rekstraráhættu verulega. Þess er vænst að sparnaður í vatnskaupum nægi til að greiða fyrir kostnað við breytingarnar og muni ekki leiða til hækkunar á gjaldskrá en gert er ráð fyrir að kostnaður verði um 350 millj. kr. Um 5700 mælar verða settir upp.

Nýju mælarnir sem settir verða í hús á Suðurnesjum verða þannig að unnt verður að lesa af þeim í gegnum netið og falla þannig að stefnu fyrirtækisins að innan örfárra ára heyri staðbundinn álestur og áætluð orkunotkun sögunni til. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki 2-3 ár. Þessar breytingar munu hafa þau áhrif að nú mun hvert heimili greiða fyrir notkun en hingað til hafa Suðurnesjamenn ekki þurft að hafa áhyggjur af magni vatns sem þeir hafa notað. Eigendur heitra potta sem margir eru með sírennsli munu t.d. þurfa að huga að þessu.

Fjárfestingar HS Veitna á árin 2015 eru áætlaðar 1.760 millj. kr. þar af 1.256 m.kr. í raforkukerfunum. Þar eru stærst spennuvirki í Eyjum, aðveitustöð í Helguvík og önnur á Ásbrú ásamt tengingu við Fitjar.

Stærsti eigandi HS Veitna er Reykjanesbær með 50,1% en hann seldi tæp 17% á síðasta ári en það gerði líka Orkuveita Reykjavíkur. Þá seldu hin sveitarfélögin á Suðurnesjum sína hluti nema Sandgerðibær á enn 0,1%. Næst stærsti eignaraðilinn er HSV Eignarhaldsfélag sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða hér á landi. Þriðji eignaraðilinn er Hafnarfjarðarbær sem á 15,4%. Nýr formaður stjórnar HS Veitna er Gunnar Þórarinsson úr bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Sírennsli í heita potta hættir

Notkun rennslismældrar veitu fer mikið eftir ástandi hitakerfis og notkunarmynstri einstakra notenda þar sem ekkert í mælitækinu sjálfur takmarkar rennslið einsog hemillinn gerir. Það eru húseigendurnir einir sem geta haft áhrift á notkun sína með breyttu notkunarmynstri og með því að betrumbæta húskerfi sín, m.a. með sírennsli í heita potta. Við teljum mikilvægt að ábyrgðin á því að fylgst sé með notkuninni færist nær notandanum, segir í bréfi frá HS Veitum til húseigenda.

Fyrstu hugmyndir gera ráð fyrir að fyrstu mælarnir verði settir í hús í Innri Njarðvík og líklega muni það gerast um eða eftir mitt árið 2015. Gert er ráð fyrir að um 3 klst. taki að skipta um mæli á hverju heimili.