HS Orka styrkir hestamannafélagið Brimfaxa
HS Orka mun styðja hestamannafélagið Brimfaxa í Grindavík næstu þrjú ár, en skrifað var undir samning þess efnis á dögunum.
„Við erum ákaflega stolt af því að styðja við bakið á Brimfaxa sem er um þessar mundir að taka í notkun nýja og stórglæsilega reiðhöll í Grindavík. Hestamennska er mannbætandi og góð aðstaða er mikilvæg í þessu skemmtilega áhugamáli,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.
HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og það eina sem er í einkaeigu. Fyrirtækið framleiðir og selur rafmagn um allt land. Fullnýting og umhyggja fyrir umhverfinu hefur ætíð verið rauði þráðurinn í starfseminni og hefur meðal annars leitt af sér stofnun Auðlindagarðs á Reykjanesi, þar sem fyrirtæki hafa sprottið upp og nýtt hina ýmsu auðlindastrauma sem verða til við framleiðslu á rafmagni og heitu vatni.
„Það er okkur mikilvægt að finna fyrir velvilja HS Orku í okkar garð. Styrkur þessi mun hjálpa okkur í rekstri á nýrri reiðhöll okkar og uppbyggingu á æskulýðsstarfi. Þess má geta að hestamannafélagið ætlar í samstarfi við Grindavíkurbæ að bjóða uppá hestamennsku sem valfag í grunnskólanum hjá eldri nemendum,“ segir Hilmar Knútur Larsen, formaður Brimfaxa.