Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HS Orka hreppti Forvarnarverðlaun VÍS
Meðfylgjandi er mynd frá afhendingunni af Ásgeiri Margeirssyni forstjóra HS Orku og Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur forstjóra VÍS. Myndina tók Sigurjón Ragnar.
Fimmtudagur 12. febrúar 2015 kl. 16:28

HS Orka hreppti Forvarnarverðlaun VÍS

– verðlaunin afhent á forvarnaráðstefnu VÍS og Vinnueftirlitsins.

HS Orka hf. hreppti Forvarnarverðlaun VÍS 2015 sem afhent voru á forvarnaráðstefnunni Engar afsakanir í öryggismálum sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica í gær. Forvarnarverðlaun VÍS eru veitt fyrir framúrskarandi forvarnir og öryggismál og er HS Orka þar í fremstu röð. Jafnframt fengu Verkís hf. og Faxaflóahafnir sf. viðurkenningu frá VÍS fyrir góðan árangur í forvörnum og öryggismálum.

Skipulag og framkvæmd öryggismála er til mikillar fyrirmyndar hjá HS Orku. Öryggisáætlun er kynnt árlega og þjálfun starfsfólks viðhaldið með reglulegum æfingum. Öflug atvikaskráning er til staðar og öll atvik og vinnuslys rannsökuð. Lögð er rík áhersla á bæði reglubundið og fyrirbyggjandi viðhald til að tryggja öryggi, áreiðanleika og endingu í rekstri fyrirtæksins. Mánaðarlegt eldvarnaeftirlit er á öllum starfstöðvum og á þriggja ára fresti er efnt til sértakra öryggisvikna fyrir alla starfsmenn. Öryggisfundir eru með verktökum í tengslum við allt viðhald á vélum og áður en það hefst. Umgengnismál hafa alltaf verið stjórnendum og starfsmönnum mjög hugleikin sem endurspeglast í einstaklega góðri umgengni bæði inna- og utanhúss. Sérstakir umsjónarmenn gegna þar lykilhlutverki.

HS Orka er fyrirmyndardæmi um hve miklum árangri hægt er að ná í forvörnum og öryggismálum, þar sem stjórnendur og starfsmenn hafa í sameiningu náð að skapa einstaka öryggis- og umgengnismenningu.

Hjá Verkís er mikið lagt upp úr öryggis-, heilsu og umhverfismálum. Starfsmenn eiga ávallt að nota viðeigandi persónuhlífar og annan öryggisbúnað við störf sín, gert er áhættumat starfa, frávik í öryggismálum skráð og  reglubundinni öryggis- og forvarnafræðslu er sinnt af kostgæfni. Öll hönnun nýrra höfuðstöðva fyrirtækisins er í samræmi við breska umhverfisvottun og er sérstaklega hugað að lýsingu, hljóðvist, orkunýtingu og umhverfismálum. Verkís starfar samkvæmt vottuðu gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi (ISO 9001, 14001 og OHSAS 18001).

Hjá Faxaflóahöfnum er lögð rík áherslu á að uppfylla bæði innlendar og erlendar öryggiskröfur og staðla sem lúta að hafnavernd. Gert er áhættumat starfa á öllum starfsstöðvum, öll slys, óhöpp og tjón skráð í atvikaskráningu, haldin regluleg námskeið í skyndihjálp  og ýmiskonar vinnuvernd. Þá er fyrirtækið í góðu samstarfi við Slysavarnaskóla sjómanna um kennslu í eldvörnum, öryggi og björgunaræfingar á sjó.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024